Bresk stjórnvöld hafa sektað Barclays-bankann um andvirði 57 milljarða íslenskra króna (290 milljónir punda) eftir rannsókn sem leiddi í ljós að bankinn hefði haft ólögleg áhrif á gengi millibankavaxta, bæði LIBOR og EURIBOR.
Er þetta hæsta sekt sem breska fjármálaeftirlitið hefur lagt á nokkurt fyrirtæki, en glæpsamlegt athæfi bankans stóð yfir í nokkur ár og var umfangsmikið. Æðstu yfirmenn bankans hafa í framhaldi af þessari tilkynningu gefið út að þeir muni gefa eftir bónusgreiðslur þetta árið.
Millibankavextir eru viðmiðunarvextir sem fjármálastofnanir nota þegar verið er að lána milli bankastofnana og eru grundvallaratriði í bankaviðskiptum bæði í Bretlandi og á alþjóðafjármálamarkaðnum.