Atvinnuleysi mælist 11,1% í evruríkjunum samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat og hefur aldrei verið meira síðan evran var sett á fót 1999. Meira en 17,5 milljónir eru atvinnulausar á svæðinu, en þar af eru 3,4 milljónir undir 25 ára. Hagfræðingurinn Howard Archer sagði í samtali við AFP að það væri „örlítil huggun í því fólgin að aukning atvinnulausra í maí hefði verið sú minnsta í 11 mánuði“, en samt sem áður bætast tugir þúsunda við atvinnuleysisskrár í hverjum mánuði.
Þetta kemur í kjölfar frétta um að iðnframleiðsla á evrusvæðinu sé einnig að minnka, en samdrátturinn á öðrum fjórðungi hefur ekki verið minni síðustu 3 árin. „Við hræðumst að björgunarsamkomulag evruríkjanna hafi ekki verið nægjanlegt til að ná áframhaldandi efnahagsbata,“ segir Martin van Vliet, hagfræðingur hjá ING-bankanum og segir að evrópski seðlabankinn þurfi að taka frekari skref, svo sem með lækkun vaxta, til að koma hjólum efnahagslífsins aftur af stað.