Fréttaskýring: Barclays vaxtasvindlið

Barclays-bankinn í Bretlandi var í síðustu viku sektaður um 290 milljónir sterlingspunda, en það nemur um 57 milljörðum íslenskra króna, fyrir að hafa stundað vaxtasvindl á LIBOR  millibankavöxtum frá því árið 2005. Þetta er hæsta sekt sem bresk stjórnvöld hafa lagt á banka hingað til og hafa bresk blöð fjallað mikið um málið síðustu daga.

Bæði stjórnmálamenn og almenningur virðast hafa fengið nóg af þeim lýsingum sem fram koma í skýrslu breska fjármálaeftirlitsins og er hávær krafa um að sektargreiðsla frá fyrirtækinu dugi ekki ein og sér heldur eigi að sækja til saka þá sem stóðu á bak við svindlið. Hluthafar eru heldur ekki sáttir en gengi bréfa bankans lækkaði um 15% dagana eftir að upplýst var um brotin. Það hefur þó gengið til baka um 3% þegar þetta er skrifað.

David Cameron forsætisráðherra hefur nú þegar ákveðið að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka bankageirann, löggjöfina og brot sem hafa verið framin. Gefið hefur verið út að bæði bandarísk og bresk stjórnvöld eru með fleiri banka til skoðunar, en það kemur í ljós á næstunni hvort þeir verði einnig sektaðir.

Hvað er LIBOR?

Það er ekki vitlaust að byrja á að útskýra hvað LIBOR vextir eru, en þetta mál gengur allt út á að Barclays-bankinn hafi haft ólögleg áhrif á þá. LIBOR stendur fyrir London Interbank Offered Rate og eru það vextir sem eru í boði á millibankamarkaði í London. Þeir eru reiknaðir á hverjum degi af sambandi breskra banka (BBA) sem skoðar vexti sem 16 bankar í Bretlandi bjóða hver öðrum á hverjum degi. Fjórar efstu tölurnar og fjórar neðstu eru teknar út og meðaltal þeirra átta sem eftir standa mynda grunn LIBOR vaxta þess dags. Með þessari aðferð átti að taka út þá áhættu að einn aðili gæti haft áhrif á vaxtaprósentuna, en það virðist ekki hafa dugað og að þessar aðferðir hafi verið algengari en búist var við.

LIBOR vextir eru svo notaðir af bæði þessum sömu bönkum og öðrum bönkum um heiminn til að ákvarða vexti á bæði millibankamarkaði og til viðskiptavina, þó aðrar forsendur hafi oft áhrif líka. Nærtækt dæmi hérlendis eru þau vaxtakjör sem voru á erlendum lánum. Þar miðuðust lánin við gengi erlendra gjaldmiðla en vaxtakjörin voru LIBOR vextir auk bankaálags. Álagið var ákvarðað út frá þeim vaxtakjörum sem bankinn fékk (aðallega á erlendum mörkuðum) og við bættust LIBOR vextirnir. Ólögleg áhrif á LIBOR vexti gátu því haft bein áhrif á íslenska lántakendur.

Auk þess er líklegt að þessar breytingar hafi haft einhver óbein áhrif t.d. í gegnum hærri eða lægri vaxtakjör sem bankar fengu á erlendum mörkuð og á þau vaxtakjör sem þeir buðu hér heima í kjölfarið. Tekið skal fram að Barclays-bankinn hafði áhrif á vaxtakjörin í báðar áttir, eftir því sem það hentaði honum hverju sinni og því ekki víst að lántakendur hérlendis hafi tapað á þessu.

Langur aðdragandi

Strax árið 2005 höfðu komið fram ásakanir frá verðbréfamiðlurum um að aðilar hjá Barclays væru að hafa áhrif á vextina og frá 2005-2009 fundust 257 beiðnir frá miðlurum hjá Barclays um að hafa áhrif á gengið. Á fyrri hluta tímabilsins virðist hafa verið algengast að vextirnir hafi verið gerðir hærri en efni stóðu til en þegar þrengingar fóru að segja til sín á mörkuðum hafði það betri áhrif á lánshæfi bankans að lækka vextina og gaf það „heilbrigðari“ mynd af bankanum.

Árið 2007 og 2008 var farið að draga í efa raunhæfi LIBOR vaxta og viðurkenndi háttsettur starfsmaður innan Barclays í samtali við starfsmann BBA að bankinn hefði ekki alltaf verið heiðarlegur með þessa vexti en réttlætti það með því að „aðrir bankar væru verri“. Út á við sagði bankinn svo fjölmiðlum að þeir hefðu alltaf gefið réttar upplýsingar og ekki reynt að hagræða vöxtunum neitt. Á sama tíma skrifaði bandaríska blaðið the Wall Street Journal greinar um að hugsanlega væru LIBOR vextir ekki raunhæfir. 

Viðbrögð stjórnvalda

Í kjölfar sektarinnar sem hefur verið lögð á bankann hafa stjórnmálamenn í Bretlandi keppst við að gagnrýna stjórnendurna og notað tækifærið til að hnýta í ofurbónusa innan fjármálageirans. Fyrstu viðbrögð David Camerons voru að hann teldi „alla framkvæmdastjórnina þurfa að svara alvarlegum spurningum“ en vildi ekki tala um ákærur. Stjórnarandstæðan var fljót til og vildi fá opinbera rannsókn fyrir dómstólum en ríkisstjórnin var ekki eins áfjáð og sagði alla vita hvað hafi gerst og að eyða tíma og peningum í yfirheyrslur væri vitleysa. Síðan þá hefur stjórnin breytt um skoðun og vill nú fá rannsóknarnefnd á vegum þingsins til að skoða málið og gerir kröfu um að niðurstaða verði komin fyrir jól.

Cameron hefur gert að því skóna að ábyrgðin fyrir þessu máli liggi fyrst og fremst hjá fyrri stjórn Verkamannaflokksins þar sem þeir hafi leyft bankageiranum að komast upp með lítið regluverk sem hafi gert þeim kleift að misnota aðstöðu sína jafn mikið og raun ber vitni um.

Ed Miliband, formaður Verkamannaflokksins, segir það af og frá og að það hafi verið Íhaldsflokkurinn sem hafi komið í veg fyrir allar tilraunir sem hafi miðað að hertu regluverki á fjármálamarkaði. Hann ítrekaði í viðtali við BBC í morgun að ef ekki kæmi til opinberrar rannsóknar myndi markaðurinn og almenningur missa trú á fjármálakerfinu í Bretlandi og við því mætti það ekki.

Afsagnir yfirmanna

Strax daginn eftir að tilkynnt var um sektina komu upp kröfur um afsagnir stjórnenda. Hlutabréf bankans lækkuðu mikið og fóru mest niður um 15%. Í gær sagði stjórnarformaður Barclays, Marcus Agius, af sér og sagði að hann bæri mesta ábyrgð á því sem gerðist.

Bob Diamond, forstjóri bankans, sendi bréf til starfsmanna í framhaldinu og sagði að hann væri best til þess fallinn að komast að því sem gerst hefði í bankanum og leiða hann út úr því ástandi sem nú gengi yfir. Hann viðurkenndi einnig að bankinn hefði viljandi gefið út lægri vexti til að reyna að verja bankann, en markmiðið hafi aldrei verið að skaða aðra.

Afsögn stjórnarformannsins lægði samt ekki öldurnar og í morgun sagði svo Diamond af sér eftir að hafa áður, ásamt öðrum yfirmönnum bankans, fallið rétti sínum til að fá bónusa á þessu ári. Agius var á sama tíma aftur gerður að stjórnarformanni meðan verið væri að finna nýja stjórnendur.

Fréttir í morgun á vef breska blaðsins Guardian herma að fleiri stjórnendur bankans muni hverfa á braut á komandi dögum og er þá helst nefndur Jerry del Missier, framkvæmdarstjóri bankans

Hvert er framhaldið?

Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (SFO) hefur gefið út að þeir séu að ræða við fjármálaeftirlitið um framhaldið. Það getur þýtt að frekari rannsóknir með hugsanlegum ákærum séu í burðarliðnum, en það hefur þó ekki enn verið ákveðið. Rannsókn fjármálaeftirlitsins heldur áfram með aðra banka sem hugsanlega tengjast vaxtasvindlinu og rannsóknarnefndin á vegum þingsins mun hefja störf fljótlega.

Það er þó eitt sem eftir stendur. Almenningur í Bretlandi hefur lengi kvartað yfir þeirri menningu sem er í bankageiranum og krafist þess að brugðist verði við ofurbónusum og áhættuhegðun sem virðast gegnsýra fjármálalífið ytra. Það sé greinilega ekki mikið siðferði til staðar þegar ein af grunnstoðum fjármálakerfisins sé misnotuðu á jafn alvarlegan hátt og greint hefur verið frá. Það hefur einnig verið bent á að þó sektin sé mjög há, þá sé þetta ekki nema um átta og hálfs dags hagnaður fyrir bankann og tapið sé því fyrst og fremst á orðsporinu.

Heimildir

AFP

BBC
BBC
Guardian
Guardian
New York Times
Wall Street Journal

Barclays var sektaður um 290 milljónir sterlingspunda í síðustu viku.
Barclays var sektaður um 290 milljónir sterlingspunda í síðustu viku. AFP
Bob Diamond fyrrverandi forstjóri Barclays.
Bob Diamond fyrrverandi forstjóri Barclays. AFP
David Cameron er undir miklum þrýstingi að taka hart á …
David Cameron er undir miklum þrýstingi að taka hart á Barclays málinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK