Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, telur að þörf sé fyrir miðstýrða hagstjórn innan evrusvæðisins ef komi til útgáfu evruskuldabréfa. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur hingað til talað fyrir þessu skrefi ef það eigi að samþykkja útgáfu sameiginlegra skuldabréfa og ekki viljað taka ábyrgð á skuldum annarra ríkja án þessa að hafa einhverskonar völd til að koma í veg fyrir óábyrga hagstjórn.
Í samtali við þýska blaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung sagði Monti að „án almennilegrar [hag]stjórnar væri óábyrgt að sliga önnur lönd með eigin skuldum“ og bætti við að „Þýskaland og Ítalía væru á sömu línu í þessu máli og væru tilbúin að gefa eftir af fullveldi sínu“
Í síðustu viku var mikið umtal um evruskuldabréfin vegna aðstoðar við Spán og Kýpur og virðist sem Ítalía sé að gefa aðeins eftir til að nálgast kröfur Þýskalands í málinu.