Hugmyndir eru uppi um að Seðlabanki Evrópu muni sjá um eftirlit með stærstu bönkum Evrópu og að þeir verði þannig allir undir sama regluverki. Minni bankar muni áfram verða undir eftirliti stofnana í viðkomandi landi. Seinna meir eigi svo bankinn að hafa ákvörðunarvald yfir bönkum í miklum greiðsluerfiðleikum og sjá um innistæðutryggingasjóð. Þetta kemur fram í frétt Wall Street Journal, en þar var haft eftir háttsettum aðila innan fjármálageirans að um 25 stærstu bankarnir yrðu til að byrja með undir þessari nýju eftirlitsstofnun.
Þetta er leið sem Þýskaland hefur lagt til að verði farin og segja þeir að til þessara aðgerða verði að koma áður en Þýskaland muni leggja fram meiri aðstoð í efnahagsmálum. Upp hafa þó komið raddir sem vara við að öll þessi völd hjá sömu stofnun geti leitt til þess að bankinn muni með þessu alltaf útvega fallandi bönkum pening og um leið auka verðbólguna á svæðinu.