Fyrir rúmlega 6 árum var fyrirtækið Nova stofnað og hóf fljótlega tilraunarekstur á 3G-netkerfum. Einu og hálfu ári seinna var formlega opnað og síðan þá hefur fyrirtækið náð um fjórðungshlut á þráðlausa fjarskiptamarkaðinum. Í dag er Nova eitt fyrirtækja með tilraunaleyfi á 4G-netkerfum og stefnir á mikla sókn á þeim vettvangi á komandi misserum. Mbl ræddi við Liv Bergþórsdóttur, framkvæmdastjóra Nova, og fór yfir stöðuna og komandi viðfangsefni á markaðinum.
Fyrr í ár fagnaði Nova því að viðskiptavinir fyrirtækisins væru orðnir yfir 100.000, en með því náði fyrirtækið að komast í um 26% markaðshlutdeild. Það er nokkuð stórt skref á 5 árum en Liv segir að frá upphafi hafi verið stefnt að því. „Við vissum það þegar við byrjuðum árið 2007 að við þyrftum að vaxa hratt, þetta er það stór fjárfesting að byggja upp eigið farsímakerfi og fyrirtæki frá grunni, að við þyrftum að ná í um 25% af markaðinum á stuttum tíma og við tókum mið af því við hönnun innviða fyrirtækisins, t.d. með áherslu á sjálfvirkni innan fyrirtækisins.“ Í dag eru starfsmenn fyrirtækisins orðnir 93 og hefur fjölgað lítillega síðustu ár. Fyrirtækið hefur einnig náð að byggja sig upp fjárhagslega, en hagnaður Nova var á síðasta ári um 374 milljónir og voru langtímaskuldir þess engar.
Liv segir að frá upphafi hafi Nova stefnt á og ætlað að vera leiðandi á þráðlausa markaðinum hérlendis. Í dag leiðir fyrirtækið t.d. 4G-væðinguna með prufunum á 4G-kerfi. Snjallsímar í dag eru allir með 3G-neti og hefur það gert notendur kleift að vafra um netið, skoða póstinn og vera í samskiptum á samfélagsmiðlum. Liv segir að þrátt fyrir að 3G dugi að mörgu leyti sé krafa frá markaðinum um enn meiri hraða. „Það eru gríðarlega auknar kröfur frá okkar viðskiptavinum um netaðgang. Eins og fólk var rosalega ánægt með 3G árin 2007-9, æðislegt að fara með netið í farsímanum og netpunginn upp í sumarbústað o.s.frv.. Núna finnst fólki þetta ekki duga.“ og bætir við að „mest aukningin verði á lifandi efni, t.d. sjónvarpsefni“. Þetta sé eitthvað sem 3G-kerfið muni ekki anna á næstu árum.
Hér á Íslandi hefur ekkert fjarskiptafyrirtæki enn hafið 4G-þjónustu en fyrir árslok mun Póst- og fjarskiptastofnun standa fyrir útboði á tíðnum fyrir 4G-kerfi og má í framhaldinu gera ráð fyrir að kapphlaupið um tækniþyrsta íslenska 4G-notendur hefjist. „Magn ofur-snjallsíma og spjaldtölva er núna að koma svo hratt í hendur notenda að það verður sprengja í þessu,“ segir Liv og kemur það ekki á óvart því samkvæmt spám mun fjöldi notenda margfaldast á næstu árum.
Í spá frá sænska fjarskiptafyrirtækinu Telia kemur t.d. fram að árið 2015 verði notendur 4G orðnir fleiri en þeir sem nota gamla gsm-kerfið, þó að 3G-notendur verði enn í meirihluta. Þess skal þó getið að þrátt fyrir að notuð séu mismunandi kerfi geta símar sjálfkrafa hoppað milli þeirra eftir því sem þurfa þykir, t.d. ef samband er ekki nægjanlegt.
En er virkilega þörf á þessum mikla hraða? Liv telur svo vera enda hafi tæknin venjulega verið á eftir óskum notenda hvað hraða varðar og eru fyrirtæki og einstaklingar venjulega ekki lengi að fylla upp í þá bandvídd sem til staðar er. Í dag er mikið horft til þeirrar aukningar sem á sér stað með stafrænt myndefni og gera spár alþjóða samtaka farsímaþjónustuaðila ráð fyrir að aukning í umferð á þessu sviði muni hundraðfaldast fram til ársins 2015 og verði þá hlutfall stafræns myndefnis og gagna niðurhals tæplega 90% af heildarumferð um farsímakerfi.
Sá möguleiki á að streyma sjónvarpssendingum gegnum 4G mun einnig líklega leysa fyrri tegundir myndlykla af hólmi og verður þá auðvelt að skutlast með 4G pung upp í sumarbústað og streyma kvikmyndir í sjónvarpið og er þá engin þörf fyrir loftnet né sér kapal. Aðspurð hvort kostnaður við uppbyggingu 4G-kerfisins sé mikill segir Liv svo ekki vera. Nova sé nú þegar með sitt eigið 3G-kerfi og með uppfærslu á þeim búnaði sé kerfið tilbúið fyrir 4G og ekki sé þörf á því að kaupa nýja senda eða slíkt.
Þegar hraðatölur fyrir 4G eru skoðaðar er ljóst að mjög mikið stökk er tekið með þessum nýjasta meðlimi fjarskiptafjölskyldunnar. Við bestu hugsanlegu aðstæður á 4G að geta náð hraða sem nemur um 100 megabitum á sekúndu (mbps) en við prufanir var Nova að ná um 82 mbps að meðaltali í góðum aðstæðum. Við slakari aðstæður, t.d. þegar bylgjurnar þurfa að fara gegnum byggingar, fór hraðinn niður í um 20 mbps og er það sá raunhraði sem Nova áætlar að verði á kerfinu. Til að setja þetta í samhengi er það um 10 sinnum hraðara en það sem 3G-kerfið er venjulega að anna. Viðbragðstíminn er einnig mun betri og á hann að vera þrisvar sinnum betri en hjá forveranum, eða um 20 milli sekúndur.
Það er því augljóst að sé krafa markaðarins að fá hraðara net í símann eða hafa meiri sveigjanleika með sjónvarpssendingar að þá er 4G eitthvað sem mun njóta mikilla vinsælda hérlendis.