Fjárfestar hafa keypt fyrirtækið sem rekur Hótel Borg, Keahótel á Akureyri og fleiri hótel sem heyra undir Keahótel. Þeir eignast einnig bygginguna sem hýsir Hótel KEA en fyrirtækið leigir húsnæðið undir önnur hótel. Forsvarsmenn Íshesta, m.a. Einar Bollason, og framkvæmdastjóri hjá Mjöll Frigg kaupa hlut í fyrirtækinu ásamt lögmanni.
Þeir kaupa fyrirtækið Hvannir sem á Hótel KEA bygginguna og fyrirtækið Keahótel sem annast rekstur fimm hótela.
Framkvæmdastjóri samstæðunnar, Páll L. Sigurjónsson, er eini hluthafinn sem ekki selur bréf sín en hann á 20% hlut og mun ekki auka við hlut sinn í tengslum við eigendaskiptin. Hann mun gegna starfinu áfram en Páll stofnaði fyrirtækið árið 1999 ásamt fjórmenningunum sem eru að selja, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.
Félagið rekur fimm hótel á Norðurlandi og í Reykjavík: Hótel Kea á Akureyri og Hótel Borg í Reykjavík og enn fremur Hótel Norðurland á Akureyri, Hótel Gíg við Mývatn og Hótel Björk í Reykjavík.
Kaupendur eru: Fannar Ólafsson og Kristján Grétarsson sem eiga meirihluta í Íshestum, Einar Bollason, stofnandi Íshesta en hann er stjórnarformaður fyrirtækisins (hann seldi sinn hlut fyrir skömmu), fjárfestir einnig í hótelrekstrinum ásamt Kristjáni Grétarssyni, framkvæmdastjóra hjá Mjöll Frigg, og Andra Gunnarssyni lögmanni hjá Nordik Legal. Landsbankinn hafði milli göngu um kaupin, segir í tilkynningu.
Seljendur eru Ívar Sigmundsson, Sigurbjörn Sveinsson, Þorsteinn Hlynur Jónsson og Páll Sigurþór Jónsson, samkvæmt upplýsingum frá Credit info. Hver þeirra átti 20% hlut í fyrirtækinu. Þeir eru búsettir á Akureyri.