Bandarísk þingnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að eftirlit breska bankans HSBC, sem er stærsti banki Evrópu, hafi verið óviðunandi og að hann hafi staðið berskjaldaður gagnvart peningaþvætti.
Í skýrslu nefndarinnar segir að háar fjárhæðir sem tengjast fíkniefnaviðskiptum í Mexíkó hafi án efa farið í gegnum bankann. Nefndin mun koma saman í dag til að fjalla um niðurstöðurnar.
Þá segir að grunsamlegar upphæðir frá Sýrlandi, Cayman-eyjum, Íran og Sádi-Arabíu hafi einnig farið í gegnum bankann.
Forsvarsmenn HSBC segjast búast við að þurfa að svara til saka vegna þeirra mistaka sem voru gerð.
Skýrsla þingnefndarinnar er svört og kemur á slæmum tíma fyrir breska bankakerfið, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins. Nú vinna eftirlitsaðilar og stjórnmálamenn að því að fara ítarlega yfir starfsemi bankanna.