Evrusvæðið er í alvarlegri hættu en ef gripið verður til aðgerða fljótt í bankakerfinu verður hægt að endurvekja traust á svæðinu, segir í nýrri skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. „Evrukreppan hefur náð nýju og tvísýnu stigi.“
Leggur AGS til að gefin verði út evrubréf í einhverri mynd og að Seðlabanki Evrópu dæli fjármagni inn í hagkerfið meðal annars með kaupum á ríkisskuldabréfum aðildarríkja og til að fjármagna banka.
Hrun evrusvæðisins hefði alvarlegar afleiðingar fyrir önnur ríki í Evrópu
Segir í skýrslu AGS að þrátt fyrir ýmsar pólitískar aðgerðir þá sé staðan mjög slæm á fjármálamörkuðum á svæðinu og það veki spurningar um lífvænleika myntbandalagsins sjálfs. Ef kreppan versni muni það hafa mikil áhrif á önnur ríki í Evrópu og önnur ríki heims.
AGS telur að gengi evrunnar sé of hátt skráð en það sé ekki nóg fyrir þau lönd sem eiga í verulegum vanda, eins og Spán og Ítalíu. Varar AGS við verðhjöðnun á svæðinu og leggur til að ríki í Norður-Evrópu sem standa vel að vígi eigi að leyfa launahækkanir og verðbólgu að vaxa.