Hvatvís smábæjarstelpa sem varð forstjóri

Marissa Mayer
Marissa Mayer AFP

„Hún er smábæjarstelpa sem fór í Stanford og lærði forritun og var ráðin sem tuttugasti starfsmaður Google og fyrsti kvenkyns forritarinn.“ Nú eftir 13 ár í starfi hjá fyrirtækinu og sem einn af aðalfrumkvöðlum þess hefur Marissa Mayer ákveðið að skipta um vettvang og var ráðin forstjóri netrisans Yahoo! í gær. Svona lýsir fréttakonan Laura Holson henni, en Holson hefur fengið að fylgjast mikið með og skrifa um Meyer síðustu ár.

Mikið hefur verið rætt um þessa breytingu, sérstaklega í ljósi þess að hún er ein af fáum konum í Bandaríkjunum sem stjórna stóru fyrirtækjunum, auk þess er hún ung og í kjölfar tilkynningarinnar í gær sagði hún frá því að hún væri ólétt. Það er því ljóst að bæði Mayer og Yahoo! eru að stíga stórt skref með ráðningunni og ef vel gengur er líklegt að Meyer verði fordæmi og muni jafnvel valda breytingum á forstjóramenningu vestra.

Meyer fæddist í smábænum Wausau í Wisconsin í Bandaríkjunum árið 1975 og er hún því 37 ára. Hún gekk í Stanford-háskólann og lauk þar BS-gráðu í táknfræðum og seinna meir hlaut hún MS-gráðu í tölvunarfræðum. Með henni í námi í Stanford voru tveir menn sem seinna áttu eftir að verða þekktir um allan heim og breyta miklu um framtíð Mayer. Það voru þeir Larry Page og Sergey Brin sem stofnuðu Google-fyrirtækið sem hún seinna hóf störf hjá. Áður en hún byrjaði þar vann hún í skamman tíma hjá meðal annars UBS-bankanum í Sviss. 

Google-árin

Þegar hún var ráðin til Google var hún 20. starfsmaðurinn og fyrsta konan til að sinna forritun hjá fyrirtækinu, þótt hún hafi fljótlega farið yfir í hönnun. Þeir sem til þekkja segja að Meyer sé með eins konar þráhyggju fyrir smáatriðum og atriði eins og skuggar af tökkum og táknmyndum skipti hana miklu máli til að ná sem bestum heildaráhrifum. Það er ekki langt að sækja stórt nafn í tæknigeiranum sem var lýst á svipaðan hátt, en Steve Jobs, fyrrverandi forstjóri Apple, var ávallt talinn mjög nákvæmur er kom að smáatriðum við hönnun.

Innan Google vann Mayer sig fljótt upp metorðastigann og leiddi þann hluta Google sem sá um leitarsíðuna, tölvupóstinn, fréttirnar, myndirnar og fleira. Þar er hún talin hafa ráðið mestu um einfalt útlit og hvítan bakgrunn síðunnar sem við öll þekkjum í dag. Árið 2010 var hún gerð að aðstoðarstjóra yfir staðsetningarhluta Google sem sér meðal annars um korta- og vegamyndakerfin (e. Google Maps og Steet view).

Margir vildu meina að með þessu hefði verið horft framhjá henni og hún færð neðar í stjórnunarstiganum, en leitarhlutinn sem hún hafði stýrt áður var sá tekjuhæsti hjá fyrirtækinu og nú var hún orðin varastjórnandi á öðru sviði. Á móti fór hún úr því að stýra 250 manns yfir í að hafa umsjón með 1.100 starfsmönnum og 6.000 verktökum og þar með sjá um 20-25% af einu stærsta fyrirtæki heims. Með breytingunni fékk hún einnig aðgang að framkvæmdaráði Google, en þar með hafði hún beinan aðgang að forstjórunum tveimur.

Fjölskyldan

Töluverð umræða var einnig um hvort Mayer hefði ákveðið að taka fjölskyldulífið fram yfir starfsferilinn og væri að minnka við sig, en árinu áður hafði hún gifst frumkvöðlinum Zachary Bouge í glæsilegu brúðkaupi. Mayer var þó þekkt fyrir að hafa talað fyrir því að konur ættu að fara meira út í tæknigeirann og taka stór skref í starfi í staðinn fyrir fjölskyldupælingar. Fljótlega stimplaði hún sig þó aftur inn í atvinnulífið þegar hún gerðist stjórnarmaður hjá Walmart, en það var hennar fyrsta stjórnarseta hjá hlutafélagi.

Með ráðningunni til Yahoo! er Mayer komin í fámennan hóp kvenkynsstjórnenda hjá bandarískum stórfyrirtækjum, en í Fortune 500-fyrirtækjunum (500 stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna) eru aðeins 20 kvenkynsforstjórar og af þeim aðeins þrjár undir 50 ára og er Mayer yngst þeirra. Til að gera afrek hennar enn merkilegra þá tilkynnti hún daginn eftir ráðninguna að hún væri ólétt og að hún ætti von á sér í október. Hún tók þó fram að hún hygðist aðeins taka sér nokkrar vikur í fæðingaorlof og reyna að vinna heiman frá ef með þyrfti. 

Umræðan um óléttuna

Skiptar skoðanir hafa verið uppi um þessar fyrirætlanir Mayer og sagt að loksins þegar ólétt kona sé ráðin sem forstjóri stórfyrirtækis sé það strax tekið fram að hún ætli ekki að fullnýta rétt sinn til fæðingaorlofs og að það geri hana ekki að sömu fyrirmynd og margir vilji vera láta. Á móti hefur verið bent á að það að komast á toppinn sé oft mun erfiðara fyrir óléttar konur eða mæður meðan það að halda stöðu sinni þar geti verið einfaldara. Þar sé 9-5-vinnuskyldan ekki jafnmikil og ef fólk sé nægjanlega skipulagt sé hægt að hafa meiri sveigjanleika. 

Sagt er að Yahoo! hafi haft samband við Mayer á mánudaginn og að hún hafi sagt upp hjá Google með símtali eftir hádegi sama dag. Hún hóf svo störf hjá Yahoo! á þriðjudaginn, þannig að hlutirnir voru ekki lengi að breytast. Í yfirlýsingu sagðist hún vera spennt fyrir Yahoo! og að „ákvörðunin um að skipta hafi verið frekar auðveld“. Hún telur einnig Yahoo! vera enn „eitt besta vörumerkið á netinu og að þegar Google byrjaði að gera kannanir hjá notendum fyrir 13 árum hafi fólk ekki skilið muninn á Yahoo! og netinu“.

Mikið starf hjá Yahoo!

Miðað við stöðu fyrirtækisins síðustu árin, ör forstjóraskipti og óánægju hluthafa, er víst að mikið starf bíður Mayer. Flestir virðast þó sáttir við breytinguna og telja hana til hins betra þótt markaðurinn á Wall Street hafi sýnt lítil viðbrögð og lækkuðu bréf Yahoo! í gær um 0,29%. Yahoo! býr í dag yfir fjölmörgum vörumerkjum og þjónustu sem hafi ekki  beina framtíðarsýn og að fyrirtækið hafi skipulagt heildstætt hvert það stefni. Mayer hefur sagt að hennar fyrsta verk verði að leggja áherslu á sterku vörumerkin svo sem póstþjónustuna, íþróttirnar og viðskiptin, en einnig telur hún breiðbands- og farsímaþjónustuna vænlega. 

Næstu misseri munu leiða í ljós hvort þessi unga frumkvöðlakona nær, með sínum mikla aga og smámunasemi, að draga upp fyrirtæki sem hefur horft á helstu keppinautana skjótast fram úr sér síðustu árin. „Hún er hæfileikaríkur stjórnandi, en stundum er hún frekar hvatvís svo stundum er erfitt að vinna með henni,“ var haft eftir fyrrverandi samstarfsfélaga á vef BBC. Þar kom einnig fram að þótt hún hefði sannað sig sem frábæran hönnuð og yfirmann ætti hún enn eftir að sýna fram á að hún gæti stýrt stóru alþjóðlegu fyrirtæki.

Það er þó víst að margar konur munu fylgjast náið með framtíð hennar og sjá hvort hún nær að breyta hugarfari og menningu stórfyrirtækja er kemur að ráðningu óléttra kvenna og framgangi mæðra í atvinnulífinu.

Höfuðstöðvar Yahoo!
Höfuðstöðvar Yahoo! AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK