2000 bílar verða settir á sölu

Með mikilli fjölgun bílaleigubíla fylgir mikil endursala á notuðum slíkum …
Með mikilli fjölgun bílaleigubíla fylgir mikil endursala á notuðum slíkum bílum. Ómar Óskarsson

Velta bifreiða er töluverð á bílaleigumarkaðinum og eru keyptir nokkur þúsund nýir bílar á hverju ári af bílaleigum hérlendis. Hámarksaldur bíla á leigunum er oft á tíðum 2-3 ár og því kemur á hverju ári mikill fjöldi notaðra bíla frá þessum geira á almennan markað. Eftir gífurlega sprengingu á bílaleigumarkaði síðustu árin má gera ráð fyrir að fjölgun verði einnig í endursölu.

Gífurleg fjölgun bílaleigubíla

Samkvæmt tölum frá Umferðastofu voru skráðar leigubifreiðar 10.290 hér á landi í júní. Þetta er fjölgun um 37% á einu ári, en á síðustu 2 mánuðum hefur verið 30% fjölgun skráðra leigubifreiða. Þess ber þó að geta, eins og sjá má á meðfylgjandi grafi, að fjöldi skráðra bíla fer í sveiflum og lækkar venjulega á haustin og veturna. Síðustu 2 ár hefur verið greinileg fjölgun þegar horft er fram hjá árstíðabundnum sveiflum.

Samkvæmt heimildum mbl má gera ráð fyrir að um 6000 bílar séu í eigu stærri bílaleignanna sem miða venjulega við 2-3 ára hámarksaldur bifreiða. Hinir 4300 bílarnir eru í eigu rúmlega 120 minni leiguaðila, gistiheimila eða bifreiðaverkstæða, sem t.a.m. lána stundum bíla á meðan verið er að gera við bifreiðar viðskiptavina. Aldur bíla hjá þessum aðilum er oft á tíðum nokkuð hærri og því erfitt að gera sér grein fyrir endurnýjuninni þar, en víst er að þumalputtareglan um að flotinn sé endurnýjaður á þriggja ára fresti á ekki við þar.

Almennt þurfa bílaleigur að hafa nýjar bifreiðar í útleigu í 15 mánuði áður en þær geta endurselt þá til að vera í undanþáguflokki með vörugjöld, en í ársbyrjun 2011 var samþykkt á Alþingi undanþága þess efnis að bílaleigur mættu endurselja 20% af bílaflota sínum um áramótin 2010-2011 eftir 6 mánaða notkun.Var þetta gert til að örva endurnýjun á bílaflota landsins, en hún var mjög lítil á þessum tíma. Þó meira en 6 mánuðir séu liðnir frá því að undanþágan var gefin má leiða líkur að því að enn sé eitthvað til af bílum hjá leigunum sem falla undir þessa skilgreiningu og gæti það því aukið örlítið á fjölda bíla sem verða seldir í haust eða vetur.

Þriðjungur seldur

Samkvæmt Sigfúsi Sigfússyni, forstjóra Hertz bílaleigunnar, hefur landslagið þó verið að breytast síðustu ár og í dag eru jafnvel bílar seldir yfir sumartímann ef það er hagur af því, en á móti kemur að bílar eru núna keyptir inn allt árið, en ekki bara á vorin eins og áður tíðkaðist, þó mesta salan sé enn þá. Segir hann jafnframt að ekki sé „ólíklegt að 1/3 af flota þeirra [stóru] bílaleigna fari í sölu í haust og næsta vetur“

Heildarfjöldi bílaleigubíla í janúar 2010 og 2011 var bæði árin um 6600, en nýir bílar sem þá voru keyptir eru núna 2-3 ára. Hluti stóru leignanna var á þessum tíma stærri en í dag þannig að ef gert er ráð fyrir þriðjungssölu á þeirra hlut að viðbættri auka sölu vegna 20% undanþágunnar og einhverri endursölu frá minni aðilum má auðveldlega gera ráð fyrir um 2000 notuðum bílum til sölu eftir sumarið og fram á vetur frá bílaleigunum. Væntanleg hækkun á vörugjöldum um áramótin getur svo jafnvel hvatt bílaleigurnar enn frekar til að fjárfesta í endurnýjun bílaflotans að mati Sigfúsar og þannig jafnvel enn aukið á fjölda bíla í endursölu.

Fjöldi bílaleigubíla á skrá hérlendis eftir mánuðum.
Fjöldi bílaleigubíla á skrá hérlendis eftir mánuðum.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK