Libor málið svokallaða sem kom upp fyrir um hálfum mánuði þegar breska Barclays bankanum var gert að greiða himinháa sekt fyrir að hafa haft óeðlileg áhrif á Libor vexti hefur heldur betur verið að vinda upp á sig. Í framhaldi af sektinni fór umfjöllun um málið, bankastarfsemi, menningu og siðferði innan bankanna og mögulega aðild annarra banka á flug og hafa erlendir miðlar verið fullir af nýjum upplýsingum á hverjum degi um málið. Stjórnmálamenn voru einnig fljótir að grípa til málsins og hefur verkamannaflokkurinn í Bretlandi nýtt sér málið til að skjóta sem fastast á stefnu íhaldsmanna um nauðsynlegt eftirlit í fjármálageiranum.
David Cameron var fyrst tregur til að rannsaka málið frekar, en samþykkti svo að þingnefnd hæfi störf og hefur t.d. seðlabanki Bretlands flækst inn í rannsóknina. Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar tilkynnti svo að þeir hygðust rannsaka málið sem sakamál og voru stjórnmálamenn fljótir að lofa að deildin fengi alla þá fjármuni sem til þyrfti til að komast til botns í málinu.
Strax var ljóst að Barclays bankinn gat ekki verið einn á bakvið svindlið, því til að hafa bein áhrif á Libor vextina þarf allavega 5 banka sem allir taka þátt í að senda upplýsingar um millibankavexti til sambands breskra bankamanna. Bankar sem nefndir hafa verið að sé verið að rannsaka eru Deutsche Bank frá Þýskalandi, breski HSBC bankinn og frönsku bankarnir Societe Generale og Credit Agricole. Sá síðastnefndi sendi reyndar frá sér yfirlýsingu um að bankinn hefði ekki haft nein óeðlileg áhrif á millibankavexti. Viðskiptablaðið Financial Times sagði einnig frá því að þrír miðlarar væru sérstaklega til skoðunar, en þeir hefðu unnið hjá Credit Agricole, Deutsche Bank og HSBC. Tekið var fram að þeir störfuðu ekki lengur hjá bönkunum.
Misferli er þó ekki það eina sem fólk veltir fyrir sér eftir allar þessar uppljóstranir, heldur er trú manna á millibankavaxtakerfið á miklu undanhaldi og í vikunni sagðist Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, ekki hafa trú á kerfinu sem hann sagði „kerfislega gallað“. Pete Hahn fjármálaprófessor við Cass viðskiptaskólann sagði að eftir fall Lehman bankans 2008 hefði millibankamarkaðurinn hrunið og því væru tölurnar aðeins byggðar á ágiskunum en ekki launverulegum lánum. Því væri þessi grunnstoð ekki að fullu markverð.
Fjármála yfirvöld, eftirlitsstofnanir og samtök bankastofnana hafa í kjölfarið á þessu máli hafið rannsókn víða um heim hvernig svipuð kerfi séu byggð upp. Í grunninn má segja að eftir því sem færri stofnanir koma að ákvörðun vaxtanna þeim mun auðveldara sé að hagræða þeim. Í Bretlandi voru 16-18 bankar sem komu að ákvörðuninni meðan þeir eru 43 sem koma að ákvörðun á svipuðum vöxtum í Evrópu, Euribor. Á öðrum stöðum eru yfirleitt færri og t.a.m. eru 5 bankar sem koma að ákvörðuninni í Svíþjóð, 6 í Noregi og 16 í Japan.
Nú þegar hafa yfirvöld í Suður-Kóreu og Japan hafið rannsókn á því hvernig kerfið er uppbygg heimafyrir og hvort möguleg misnotkun hafi átt sér stað, meðan eftirlitsaðilar í Singapore og Hong Kong hafa gefið út að þeir muni skoða ofan í kjölinn hvernig málum sé háttað þarlendis. Mikil pressa hefur svo komið upp í Svíþjóð um að yfirvöld þar rannsaki fyrirkomulag Stibor vaxtanna sem eru viðmið fyrir um 40 milljarða sænskra króna þarlendis.
Nýjustu fréttirnar af málinu tengja einn af tveimur framkvæmdastjórum Deutsche Bank, Anshu Jain, beint við málið, en hann var yfir fjárfestingahluta bankans í London þegar vaxtasvindlið átti sér stað og var gerður að framkvæmdastjóra bankans fyrir minna en 2 mánuðum. Reuters fréttaveitan segist einnig hafa heimildir fyrir því að nokkrir bankar séu að ræða saman um að gera sameiginlegt samkomulag við eftirlitsaðila til að forðast alla þá neikvæðu umfjöllun, þingnefnda yfirheyrslur o.fl. sem Barclays bankinn hafi fengið á sig síðustu vikur. Óvíst sé þó hvort eftirlitsaðilar séu tilbúnir að semja við bankana.
Stjórnmálamenn og fjármálamarkaðurinn í Bretlandi eru hræddir um að Libor málið og önnur hneykslismál sem hafa dunið yfir breskt fjármálalíf síðustu misserin, svo sem peningaþvottur HSBC, muni draga mjög úr trú fjárfesta og að þeir muni hugsanlega færa sig frá London. Mervyn King, yfirmaður breska seðlabankans hefur nú tekið af skarið og boðað að endurbætur á Libor kerfinu verði ræddar á fundi í september.