Nýr forstjóri Yahoo, Marissa Mayer, mun fá um 1,8 milljarða íslenskra króna (14 milljónir Bandaríkjadollara) á ári í laun og bónusa næstu fimm árin. Þetta kemur fram í opinberum gögnum sem Yahoo! sendi frá sér í dag til að upplýsa um kjör nýs forstjóra. Ráðning Mayer til Yahoo! í vikunni vakti mikla athygli í bæði tæknigeiranum og á fjármálamarkaðinum, en hún hafði í 13 ár verið einn af aðalfrumkvöðlum keppinautarins Google.
Munu laun Mayer vera ein milljón Bandaríkjadala á ári, auk þess sem hún á möguleika á tveimur milljónum í formi bónusa. Sem bætur vegna réttinda sem hún fyrirgerir hjá Google mun hún fá 14 milljónir Bandaríkjadollara og yfir næstu fimm ár fær hún kauprétt að hlutabréfum Yahoo! að verðmæti 42 milljónir Bandaríkjadollara. Samtals er þetta um 71 milljón Bandaríkjadollara eða um níu milljarðar íslenskra króna.