Fjármálaráðherrar evruríkjanna samþykktu í dag aðstoð til handa Spáni með lánum að upphæð 100 milljörðum. Með lánveitingunni er vonast til að fjármálastöðuleiki komist á í landinu og evrusvæðinu í heild. Samþykktu ráðherrarnir samhljóða að verða við lánabeiðninni, en beðið hefur verið eftir niðurstöðu af mikilli eftirvæntingu síðan Spánn sótti um lánið 25. júní síðastliðinn.
Spánn mun bera fulla ábyrgð á nýtingu fjármunanna en stór hluti þeirra verður notaður til að koma til móts við lélega stöðu spænskra banka, en sagt hefur verið frá því að ólíklegt sé að tæplega 9% allra lána í spænska hagkerfinu verði greidd upp. Í yfirlýsingu fjármálaráðherra evruríkjanna kom fram að þótt Spánn hefði ákvörðunarvald yfir fjármununum bæri ríkisstjórninni enn að skera mikið niður, minnka fjárlagahallann og stuðla að endurbótum í hagkerfinu.
Til að lánveitingin verði fullkomlega orðin formleg þurfa ríkisstjórnir evruríkjanna að samþykkja hana. Mörg ríki hafa nú þegar samþykkt og þar á meðal eru mikilvæg ríki eins og Þýskaland og Finnland, en Finnar hafa verið mjög íhaldssamir í björgunarpökkum til ríkja í vanda. Samdi Finnland sérstaklega við Spán og fékk veð sem þeir gátu sætt sig við fyrir lánveitingunni.
Í framhaldi af fréttum um björgunarpakkann hafa hlutabréf á Spáni lækkað mikið og er IBEX 35 vísitalan í Madríd 4,20% lægri en við opnun.