Bílasala enn langt undir meðaltali - fólk skoðar sparneytna bíla

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar og fv. formaður Bílgreinasambandsins
Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar og fv. formaður Bílgreinasambandsins SteinarH

Sala nýrra bíla hefur oft sagt til um hvort hagkerfi eru í þenslu eða samdrætti. Miðað við tölur frá Umferðarstofu er sala nýrra bíla á þessu ári að ná heildarsölu síðasta árs samanlagt, en 5557 bílar hafa selst á árinu miðað við 5946 í fyrra. Greining á sölutölunum er þó ekki svona einföld, því sala til bílaleiga er stór hluti heildarsölunnar hérlendis og langflestir þeirra bíla eru skráðir á fyrri hluta ársins. Það þarf því að athuga hversu stór hluti bílasölu er til leignanna og hve stór hluti er á almennum markaði til að sjá aukningu sem ekki er drifin áfram af auknum ferðamannastraumi heldur af aukinni eyðslu heimilanna til bifreiðakaupa.

Spá 7500 nýjum bílum í ár

Samkvæmt Agli Jóhannssyni, forstjóra Brimborgar, hefur verið vöxtur á báðum þessum sviðum. Sala til bílaleiga er um 40% meiri en í fyrra og sala á almennum markaði hefur verið að aukast um 50% á árinu. Það er því greinilega kominn vöxtur á almenna markaðinn og segir Egill að heilt yfir sé verið „að spá 7500 nýjum bílum á þessu ári“ í sölu. Það er um 40% aukning frá fyrra ári en ef miðað er við meðaltalssölu síðustu áratuga uppá um 10.000 bíla á ári þá sé salan í ár enn 25% minni en í meðalári. Ef árin 2000-2008 eru svo skoðuð þá er væntanleg sala enn um 50% undir meðaltali.

„Fólk hefur trappað sig niður“

Aðspurður hvort fólk sé almennt byrjað að skoða dýrari bíla aftur segir Egill svo vera, „þróunin er samt komin til að vera, fólk hefur aðeins trappað sig niður um flokk, smærri og meðalstórir bílar verða hærra hlutfall af heildarsölunni en var fyrir hrun.“ Lægri vörugjöld á sparneytnari bíla ýti þó væntanlegum kaupendum að stærri og dýrari bílum. „Það er að verða rosalega hröð þróun í bílum hvað varðar sparneytni og mengun og það gerir það að verkum að verð á þeim bílum hefur verið að hækka minna eða lækka af því að nú eru gjöldin tengd mengun. Það hjálpar sölunni í stærri bílum þó hún hafi ekki enn náð því sem hún var.“

Egill vitnar hér til laga sem tóku gildi í byrjun árs 2010 um vörugjöld á bifreiðum og fara þá gjöldin eftir útblæstri bifreiðanna. Bíll með útblástur koltvísýrings á bilinu 0-80 g/km ber t.d. ekkert vörugjald en annar bíll sem er með útblástur á bilinu 181-200 g/km ber 45% vörugjöld. Áður hafi verið farið eftir vélastærð bifreiða og voru þá annaðhvort 35% eða 45% vörugjöld.

Hvort kreppan sé búin eða ekki í augum bílasöluaðila svaraði Egill því til að hún væri búin ef kreppa væri skilgreind sem langvarandi samdráttur, en það eimi þó enn af kreppunni þar sem „kaupmáttur gagnvart bílum virðist enn vera veikur“ og fólk hafi ekki enn í miklum mæli farið í þá fjárfestingu sem bílakaup séu.

Sala fólksbifreiða eftir árum
Sala fólksbifreiða eftir árum
Vörugjaldaflokkar fyrir bifreiðar
Vörugjaldaflokkar fyrir bifreiðar
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK