Fréttaskýring: Efnahagsvandræði í Evrópu halda áfram

Verðbréfamiðlari í Þýskalandi horfir á lækkun bréfa í dag.
Verðbréfamiðlari í Þýskalandi horfir á lækkun bréfa í dag. AFP

Efnahagsvandi evrusvæðisins virðist engan veginn vera liðinn hjá og nú beinast allra augu að Spáni og hvort örlög landsins verði þau sömu og Grikklands, Portúgals og Írlands sem öll þurftu að óska eftir neyðaraðstoð frá evruríkjunum. Spánn fékk í síðustu viku 100 milljarða evra í lán frá öðrum evruríkjum til að reisa við bankakerfið, en það virðist ekki hafa dugað sem skyldi. Dagurinn byrjaði á mikilli lækkun í Asíu vegna óróleika markaðarins um stöðu Spánar og það hefur svo smitað út frá sér um allan heim og hafa allar stærstu hlutabréfavísitölurnar lækkað í dag.

Ekki lægri í 12 ár

Strax í morgun var ljóst að hlutabréf höfðu lækkað í verði í Asíu í nótt og náði gengi evrunnar gagnvart japanska jeninu 12 ára lágmarki. Við opnun á evrópskum mörkuðum varð strax mikil lækkun og fóru bréf í Grikklandi niður um meira en 6% meðan bréf á Ítalíu og Spáni lækkuðu um meira en 5%. Voru fjárfestar sagðir órólegir vegna stöðunnar á Spáni og jafnvel að meiri vandi þar gæti dregið ítölsk fyrirtæki og efnahag með sér niður ef illa færi. Einnig beindust allra augu að Grikklandi, en fjármálaráðherrann lét hafa eftir sér í síðustu viku að Grikkland væri enn eftir á með aðhaldsaðgerðir sem samþykktar voru vegna aðstoðar frá evrópska seðlabankanum og alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Vextir yfir hættumörkum

Hækkun á vöxtum spænskra ríkisskuldabréfa á föstudaginn jók einnig á óróleikann, en vextir á 10 ára skuldabréfum fóru upp í 7,466% og voru þar með komnir vel yfir 7% hættumörkin. Portúgal, Grikkland og Írland voru öll komin yfir 7% og nálægt 7,5% þegar þau sóttu um neyðaraðstoð og uxu því efasemdir manna um möguleika spænska hagkerfisins til að ná að vinna sig úr vandanum.

Fjármálaeftirlitsaðilar á Spáni bönnuðu svo skortsölu um hádegisbilið næstu þrjá mánuðina og fylgdi Ítalía fljótlega í kjölfarið, þó aðeins í eina viku og gaf þá ástæðu að óttast væri að miklar lækkanir á Spáni gætu haft mjög mikil áhrif á Ítalíu. Spænska fjármálaeftirlitið sagði að „óstöðugleikinn sem skekur evrópska markaði gæti haft áhrif á jafnvægisstillandi áhrif þeirra [skortsölu]“, það hefði því verið ákveðið að setja tímabundið bann á.

Gögn frá seðlabanka Evrópu upplýstu svo að bankinn hefði ekki keypt nein skuldabréf frá aðildarríkjunum vikuna á undan, þrátt fyrir getgátur þess efnis að bankinn myndi hefja kaup og létta undir með ríkjum í skuldavanda. Bankinn hefur í gegnum SMP-áætlunina verið stór kaupandi að ríkisskuldabréfum frá 2010, en hefur haldið sig til hlés frá því í febrúar síðastliðnum. Fimmtudaginn 2. ágúst mun seðlabankastjórinn, Mario Draghi, tilkynna á fundi framtíðarstefnu bankans og þá væntanlega koma inn á hvort bankinn hyggst kaupa skuldabréfin aftur.

Hlutabréf hrynja í verði

Í lok dags voru rauðar tölur í öllum stóru kauphöllunum. FTSE 100-vísitalan í London fór niður um 2,09% meðan DAX 30 í Frankfurt fór niður um 3,18%. Í París fór CAC 40 niður um 2,89% en ítölsku og spænsku vísitölurnar komu nokkuð til baka eftir mjög slæma byrjun og endaði sú ítalska í 2,76% lækkun meðan spænska IBEX 35-vísitalan lækkaði um 1,10%. Hlutabréf í Grikklandi héldu aftur á móti áfram að hríðfalla og fór FTSE 20 í Aþenu niður um 8,10%. 

Bankar voru helstu aðilar í lækkunum dagsins og fór t.d. National Bank í Grikklandi niður um 11,29% meðan frönsku bankarnir Credit Agricole og Societe Generale lækkuðu um 6,22% og 5,89%.

Þrátt fyrir slæma stöðu og dökkan dag á mörkuðum sagði spænski efnahagsmálaráðherrann Luis de Guindos að ekki væri þörf á neyðaraðstoð, en svo virðist sem fjárfestar hafi ekki tekið orð ráðherrans of trúanleg.

Allar tölur voru rauðar á mörkuðum í dag
Allar tölur voru rauðar á mörkuðum í dag AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka