Sækir Spánn næst um aðstoð?

Ítalska kauphöllin. Það hafa verið heldur svartir dagar þar upp …
Ítalska kauphöllin. Það hafa verið heldur svartir dagar þar upp á síðkastið. AFP

Hlutabréf á mörkuðum í Evrópu hafa lækkað mikið í dag í kjölfar lækkana í Asíu. Talið er að hræðsla fjárfesta við að Spánn muni fljótlega þurfa allsherjar aðstoð eins og Grikkland og fleiri Evrópulönd hafi orsakað lækkunina. Gengi evrunnar hefur í dag lækkað talsvert og í morgun var gengi hennar í 12 ára lágmarki gagnvart japanska jeninu og staðan gagnvart Bandaríkjadollar hefur ekki verið lægri í sex vikur.

Á föstudaginn fóru vextir á 10 ára skuldabréfum á Spáni upp í 7,466%, en horft er á 7% markið sem einskonar hættumörk. Portúgal, Grikkland og Írland voru öll komin yfir 7% og nálægt 7,5% þegar þau sóttu um neyðaraðstoð og því hefur heyrst orðrómur um að Spánn, sem er með fjórða stærsta hagkerfi evrusvæðisins, muni fljótlega þurfa að leita á náðir evrópska seðlabankans og annarra evruríkja með neyðaraðstoð.

Fyrir helgi óskaði héraðið Valencia eftir aðstoð frá sérstökum björgunarsjóði á Spáni og í morgun kom fram að héraðið Murcia gæti fylgt í kjölfarið og óskað eftir björgunarpakka upp á 300 milljónir evra. Á föstudaginn samþykktu evruríkin einnig að að veita 100 milljarða evra aðstoð til Spánar til að styðja við bankakerfið þarlendis.

Við opnun markaða í morgun lækkuðu bréf alls staðar í Evrópu og fór FTSE MIB í Mílan lægst niður um meira en 5%, Aþena lækkaði um rúmlega 6% og IBEX 35 á Spáni fór niður um meira en 5%. Nú þegar komið er fram yfir hádegi hafa lækkanirnar komið aðeins til baka, en enn eru rauðar tölur milli 1,5% og 4,5% alls staðar í Evrópu. Koma þessar lækkanir ofan á lækkanir í lok síðustu viku þar sem hlutabréf á Ítalíu lækkuðu meðal annars um 4% á föstudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka