Þegar tölur úr tekjublaði Frjálsrar verslunar eru skoðaðar kemur í ljós að hlutur kvenna meðal hátekjufólks er frekar rýr. Í frétt mbl.is fyrr í dag kom fram að af 100 launahæstu forstjórum væru aðeins 10 konur. Í tekjublaðinu eru skattgreiðendur flokkaðir í 20 flokka eftir stöðu og stétt og þegar 10 launahæstu einstaklingar hvers flokks eru skoðaðir kemur í ljós að staðan heilt á litið hjá þessum 200 aðilum er ekki mikið betri en hjá forstjórunum.
Af þessum 200 einstaklingum eru 176 karlar og aðeins 24 kona. Það þýðir einungis 12% hlutfall kvenna í hópi hæst launuðu aðila hvers hóps. Þegar hóparnir eru skoðaðir nánar kemur í ljós að í 8 hópum eru engar konur meðal 10 launahæstu.
Fjöldi kvenna meðal 10 efstu og launahæsta konan í hverjum flokk
- Forstjórar í fyrirækjum: 2 af 10, Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi efst kvenna í 9. sæti.
- Starfsmenn fjármálafyrirtækja: 2 af 10, Hanna Björg Hauksdóttir, forstöðumaður reikningshalds Landsbankans efst kvenna í 8. sæti.
- Ýmsir menn úr atvinnulífinu: 2 af 10, Guðbjörg Astrid Skúladóttir, eigandi Klassíska listdansskólans í 1. sæti
- Næstráðendur og fleiri: 0 af 10, Guðrún Sigríður Eyjólfsdóttir, gæðastjóri Actavis efst kvenna í 11. sæti.
- Forseti, alþingismenn og ráðherrar: 4 af 10, Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra efst kvenna í 2. sæti.
- Sveitarstjórnarmenn: 2 af 10, Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri Dalvíkur, efst kvenna í 3. sæti.
- Hagsmunasamtök og aðilar vinnumarkaðarins: 0 af 10, Elsa Björk Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðingam, efst kvenna í 17. sæti.
- Embættismenn og forstjórar ríkisfyrirtækja: 1 af 10, Guðný Aðalsteinsdóttir, deildarstjóri skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, efst kvenna í 4. sæti.
- Lögfræðingar: 3 af 10, Herdís Hallmarsdóttir hæstaréttarlögmaður efst kvenna, í 4. sæti.
- Endurskoðendur: 0 af 10, Auður Þórisdóttir, framkvæmdastjóri endurskoðunarsviðs hjá KPMG, efst kvenna í 14. sæti.
- Heilbrigðisstarfsmenn: 0 af 10, Birna Jónsdóttir röntgenlæknir efst kvenna í 22. sæti.
- Flugfólk: 0 af 10, Linda Gunnarsdóttir, flugstjóri hjá Icelandair, efst kvenna í 53. sæti.
- Verkfræðingar og aðrir sérfræðingar: 0 af 10, Helga Jóhanna Bjarnadóttir hjá Eflu efst kvenna í 44. sæti.
- Prestar: 1 af 10, Agnes M. Sigurðardóttir biskup efst kvenna í 10. sæti.
- Auglýsingafólk: 0 af 10, Dröfn Þórisdóttir, markaðsfræðingur hjá Hvíta húsinu, efst kvenna í 18. sæti.
- Listamenn: 1 af 10, Yrsa Sigurðardóttir, rithöfundur og verkfræðingur, efst kvenna í 4. sæti.
- Íþróttamenn og þjálfarar: 2 af 10, Annie Mist Þórisdóttir í 1. sæti.
- Fjölmiðlamenn: 2 af 10, Ragnhildur Sverrisdóttir, kynningarfulltrúi Björgólfs Thors ,efst kvenna í 7. sæti.
- Skólamenn: 2 af 10, Bryndís Hlöðversdóttir, rektor Háskólans á Bifröst, efst kvenna í 4. sæti.
- Sjómenn og útgerðarmenn: 0 af 10, engin kona á lista.
Eins og sjá má af þessum lista eru stéttir enn mjög kynjaskiptar þegar kemur að hálaunastörfum og vekur það athygli að í stéttum þar sem mikil fjölgun hefur orðið hjá konum og í fjölda nemenda þá er enn langt í land með að konurnar komist hátt í launastiganum. Má þar meðal annars nefna verkfræðistéttina, en af efstu 70 á lista Frjálsrar verslunar er aðeins 1 kona. Af heilbrigðisstarfsfólki eru bara 2 konur meðal 50 efstu og í fluginu eru 5 konur á meðal 80 efstu. Í sjómannastéttinni nær svo engin kona á lista blaðsins.
Annie Mist Þórisdóttir var launahæst íþróttamanna á árinu.
Ómar Óskarsson
Séra Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, var hæst launuð kvenpresta, en aðeins í 10 sæti í heildina yfir alla presta. Engu að síður er hún æðsti embættismaður kirkjunnar.
Eggert Jóhannesson