Mun hækka matvöruverð á Íslandi

Skrælnaðir maísakrar í Illinois-ríki.
Skrælnaðir maísakrar í Illinois-ríki. AFP

Heims­markaðsverð á maís og soja­baun­um er í hæstu hæðum vegna gríðarlegra þurrka og upp­skeru­brests í miðríkj­um Banda­ríkj­anna. Þess­ar hækk­an­ir munu hafa áhrif á mat­væla­verð á Íslandi strax í haust að mati hag­fræðings. Maís hef­ur hækkað um 33% á ein­um mánuði.

„Þetta gæti haft áhrif á mat­væla­verðið hér á landi mjög fljót­lega, en lík­lega ekki fyrr en í haust,“ seg­ir Magnús Stef­áns­son, hag­fræðing­ur á hag­fræðideild Lands­bank­ans. Magnús bend­ir á að hækk­an­ir á ein­stök­um korn­vör­um geti haft mik­il marg­feld­isáhrif á allt mat­væla­verð. Hann vill þó ekki spá fyr­ir um hversu mik­il áhrif þetta muni hafa á mat­væla­verðið hér á landi í pró­sent­um talið.

„Það sem ég hef mest­ar áhyggj­ur af í þessu er hugs­an­leg víxl­verk­un verðlags og launa. Hætt­an er að þegar verðhækk­an­ir á maís skila sér inn í mar­vöru­verð hér á land þá finni hin al­menni launamaður það strax. Þetta verður til þess að það verður meiri þrýst­ing­ur á launa­hækk­an­ir, sem aft­ur skila sér inn í verðlagið,“ seg­ir Magnús.

 Því er spáð að í Banda­ríkj­un­um muni mat­væla­verð hækka um 2,5-3,5% á þessu ári vegna hækk­ana á korni og svo um 3-4% á næsta ári. Mat­væli munu því hækka mest af allri vöru þar í landi á ár­inu.

Þó farið sé að rigna í miðríkj­un­um er talið að upp­sker­an sé að stór­um hluta ónýt en Banda­rík­in eru einn stærsti út­flytj­andi maís og soja­bauna í heim­in­um.

Maís notaður í fjöl­marg­ar vöru­teg­und­ir

Maís og soja­baun­ir eru mikið notaðar í dýra­fóður. Þá eru maí­sol­ía notuð sem sterkja í gríðarlega mörg­um vöru­teg­und­um. Þá er maís einnig notaður í fram­leiðslu á líf­rænu eldsneyti.

Heims­markaðsverð á maís hækkaði enn um 3% í gær og um 33% á ein­um mánuði en þurrk­arn­ir sem geisað hafa á stærstu fram­leiðslu­svæðunum í miðríkj­um Banda­ríkj­anna eru þeir verstu í yfir fimm­tíu ár. Þá hef­ur annað korn, svo sem hveiti, einnig hækkað í verði í sum­ar.

„Þurrk­arn­ir munu hafa veru­leg áhrif á mat­væla­verð á næsta ári,“ hef­ur Reu­ters-frétta­stof­an eft­ir banda­ríska hag­fræðing­um Rich­ard Volpe. „Þeir eru þegar farn­ir að segja al­var­lega til sín í verði á maís og soja­baun­um en þessi áhrif munu skríða upp allt kerfið og hafa áhrif á mat­væla­verð og fóður­verð.“

Mat­væla- og land­búnaðar­stofn­un Banda­ríkj­anna hef­ur spáð því að fram­leiðsla á korni muni drag­ast sam­an um 23 millj­ón­ir tonna í ár og verða 2,40 millj­arðar tonna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka