Atvinnuleysi á Spáni heldur áfram að aukast og er það farið að nálgast fjórðung atvinnubærra í landinu. Hjá ungu fólki er hlutfallið komið yfir 50%, þrátt fyrir að ferðamannatíminn sé byrjaður og í venjulegu árferði væri horft fram á minnkun atvinnuleysis. Í heildina eru um 5,7 milljónir án atvinnu á Spáni, sem er fjórða stærsta hagkerfi Evrópu.
Á öðrum ársfjórðungi jókst atvinnuleysið úr 24% á þeim fyrsta upp í 24,4% og bættust rúmlega 53 þúsund manns á atvinnuleysisskrá. Meðal ungs fólks á aldrinum 16-24 ára fór hlutfallið upp í 53,27% frá fyrri ársfjórðungi þar sem það var 52,01%. Fyrir var atvinnuleysið á Spáni það mesta í vestrænum heimi og þessar tölur juku við það bil.
Heimilum þar sem allir vinnubærir einstaklingar eru án atvinnu fjölgaði einnig og bættust 9.300 fjölskyldur við þær rúmlega 1,7 milljónir sem nú þegar voru án atvinnu. Einu jákvæðu fréttirnar í þetta skiptið eru að nýskráningum atvinnulausra fækkaði frá fyrra tímabili, en þær voru sem fyrr segir rúmlega 53 þúsund miðað við 366 þúsund á fyrsta ársfjórðungi.
Spænska ríkisstjórnin gerir ekki ráð fyrir að ástandið muni batna það sem eftir er árs, en spár gera ráð fyrir 24,6% atvinnuleysi í lok ársins. Katalónía er það hérað sem verst hefur orðið úti, en þar eru 33,92% án atvinnu. Baskahéruðin hafa komið best út með 14,56% atvinnuleysi.