Hoen sáttur við uppgjör Marel

Theo Hoen forstjóri Marel
Theo Hoen forstjóri Marel Rax / Ragnar Axelsson

Í gær skilaði Marel ársfjórðungsuppgjöri sem hefur valdið nokkrum vonbrigðum meðal fjárfesta í kauphöllinni. Bréf félagsins hafa lækkað um rúmlega 5% síðan þá, en rekstrarhagnaður félagsins var nokkuð undir væntingum. Í samtali við Theo Hoen, forstjóra fyrirtækisins, sagðist hann vera nokkuð ánægður með uppgjörið og þrátt fyrir örlítið bakslag í markmið fyrirtækisins geri hann ráð fyrir að um eðlilega sveiflu milli fjórðunga sé að ræða.

Eins og fram kom í frétt um uppgjörið voru tekjur Marels 186,5 milljónir evra og er það 15,2% aukning frá sama tímabili í fyrra. Rekstarhagnaður var 6,5% af veltu á öðrum ársfjórðungi sem er undir markmiði félagsins um 10-12% á árinu. Er þetta versta útkoman í þrjú ár. Minni hagnað má rekja til aukins kostnaðar við framkvæmd ýmissa verkefna, aukinna umsvifa í kjölfar áframhaldandi vaxtar og óhagstæðrar samsetningar seldra vara.

Ef horft er á vöxt félagsins síðustu 8-10 árin skera síðustu tvö ár sig nokkuð úr þar sem hann hefur ekki verið jafn ör og árin þar á undan. Sagði Hoen Marel vera í réttum vexti núna. Fyrr hefði vöxturinn verið svona mikill vegna sameininga sem nú væru að baki. „Áður var vöxturinn svona mikill vegna yfirtaka, en við keyptum fjölda fyrirtækja. Í dag höfum við náð réttri samsetningu og ætti fyrirtækið núna að geta vaxið vel og sjálfstætt.“

Viðskiptavinir sem þéna vel

Aðspurður um efnahagshorfurnar í heiminum og hvort þær myndu hafa mikil áhrif á Marel á næstu ársfjórðungum sagði Hoen svo ekki vera. „Okkar viðskiptavinir eru í kjötiðnaði og almennt er hægt að segja að viðskiptavinir okkar þéni vel. Þeir eru ekki í viðskiptum sem fara mikið niður,“ og bætti við: „Þetta er iðnaður sem bankar vilja lána til, bankar vilja fjárfesta og okkar viðskiptavinir eru í iðngrein sem er ofarlega á lista hjá þeim.“ Sagði hann marga viðskiptavini hafa frestað því síðastliðið ár að fjárfesta í nýjum tækjum og því teldi hann að á næstu tveimur ársfjórðungum myndi verða smákippur í sölu hjá Marel. Þetta væri iðngeiri sem væri duglegur að leita í nýjungar og því ólíklegt að þeir mymdu halda að sér höndum lengi.

Athygli vekur að þótt pöntunum hjá Marel hafi fjölgað nokkuð milli ára varð samdráttur þar milli fyrsta og annars ársfjórðungs. Hoen sagði að farið hefði verið í gegnum pöntunarbókina og þar hefðu fundist misskráningar upp á 11 milljónir evra. Það hefði því verið fært niður og ef miðað væri við það hefði orðið aukning í pöntunarbókinni. Tók hann fram að þetta hefði engin áhrif á stöðu annarra pantana.  

Efnisorð: Marel Theo Hoen
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK