Byrjar aftur að kaupa skuldabréf

Mario Draghi seðlabankastjóri. Ræða hans í dag hefur farið illa …
Mario Draghi seðlabankastjóri. Ræða hans í dag hefur farið illa í fjárfesta í Evrópu. AFP

Seðlabanki Evrópu er tilbúinn í að hefja aftur kaup á ríkisskuldabréfum evruríkjanna. Þetta sagði Mario Draghi seðlabankastjóri eftir mánaðarlegan fund bankans þar sem ákveðið var að halda vaxtakjörum óbreyttum í 0,75%. Sagði Draghi að seðlabankinn myndi fara í „aðgerðir sem væru nægjanlega stórar til ná markmiðum bankans“ og vinna þannig úr skuldavandanum.

Sagði hann jafnframt að ekki yrði snúið til baka með evruna og að fjárfestar sem veðjuðu á frekari veikingu hennar væru að ýta vaxtastigi ríkjanna upp í óviðunandi hæðir. Tók Draghi fram að seðlabankinn myndi ekki fara út í neikvæða vexti eins og nokkur Evrópulönd, t.d. Danmörk, hafa farið út í.

Rætt hefur verið um að seðlabankinn veiti björgunarsjóð Evrópusambandsins bankaleyfi sem myndi auðvelda til muna aðgengi hans að fjármagni sem væri svo hægt að veita beint til ríkja eða einstaka banka í vanda. Draghi tók alveg fyrir þetta og sagði ómögulegt að sjóðurinn fengi bankaleyfi við núverandi aðstæður.

Mikil spenna hefur verið á mörkuðum í Evrópu fyrir tilkynninguna í dag, en fjárfestar vonuðust eftir aðgerðum frá bankanum í kjölfar orða Draghis um „evrópski seðlabankinn væri tilbúinn að gera hvað sem er til að vernda evruna“.

Hlutabréf í Evrópu hafa tekið mikla dýfu eftir ræðu Draghis og hefur spænska IBEX 35-vísitalan t.d. lækkað um meira en 5% meðan aðrar helstu vísitölurnar hafa lækkað um 0,5% til 2%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka