Í kjölfar ræðu Marios Draghis, bankastjóra evrópska seðlabankans, hafa hlutabréf í Evrópu snarlækkað. Eftir smáhækkun framan af degi tóku allar vísitölur dýfu niður á við eftir að Draghi tilkynnti áform bankans.
FTSE 100 í London hefur lækkað um rúmlega 0,50%, en DAX í Frankfurt og CAC 40 í París hafa báðar lækkað um tæplega 1,5%. FTSE í Mílan lækkaði strax um 2,6% meðan IBEX 35 í Madrid fór niður um meira en 5% áður en hún kom til baka og hefur nú lækkað um 4,30% í dag.
Hlutabréf vestanhafs hafa einnig lækkað í dag og eru allar helstu vísitölur rauðar. Lækkunin þar er þó nokkru minni en í Evrópu.