Tapaði 1,2 milljörðum á mínútu

Tölvukerfi kaupa í auknum mæli verðbréf sjálfkrafa. Eftir mikið tap …
Tölvukerfi kaupa í auknum mæli verðbréf sjálfkrafa. Eftir mikið tap Knight Capital hafa umræður um gagnsemi slíks fyrirkomulags aftur farið af stað. SPENCER PLATT

Verðbréfafyrirtækið Knight Capital Group tapaði 1,2 milljörðum króna á mínútu í 45 mínútur síðastliðinn miðvikudag vegna galla í tölvukerfi fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur hingað til hagnast verulega á verðbréfaviðskiptum með aðstoð frá tölvukerfum fyrirtækisins sem hafa gert því kleift að stunda viðskipti af meiri hraða en áður. Hefur fyrirtækið jafnframt séð um viðskipti fyrir aðra stóra aðila og selt hugbúnað til annarra verðbréfafyrirtækja.

Á miðvikudaginn uppfærði Knight tölvubúnaðinn sem sér um verðbréfaviðskipti. Þessi uppfærsla leiddi til þess að á 45 mínútna tímabili keypti forritið bréf á uppsprengdu verði sem leiddi af sér frekari hækkun á bréfum fyrirtækjanna sem forritið hélt svo áfram að kaupa. Samtals voru keypt bréf í yfir 100 fyrirtækjum.

Þegar upp komst um villuna þurfti fyrirtækið að selja bréfin til baka á raunverulegu markaðsvirði. Tapið á þessum viðskiptum var 440 milljónir Bandaríkjadollara, eða um 53 milljarðar íslenskra króna, en það samsvarar 1,2 milljörðum á mínútu.

63% lækkun

Í framhaldi af þessum mistökum hafa bréf í Knight lækkað um 63% á tveimur dögum, en tapið þurrkaði upp töluvert meira en 289 milljón dollara hagnað síðasta ársfjórðungs. Í viðtali við New York Times sagði Christopher Nagy, ráðgjafi hjá KOR trading, að þetta gæti verið upphafið að endinum hjá þessu stóra verðbréfafyrirtæki.

Knight hefur í langan tíma aðstoðað viðskiptavini við kaup á verðbréfum með því að notfæra sér tölvutæknina til hins ýtrasta. Með verðbréfaforritum sem sjá sjálf um kaup og sölu hefur fyrirtækið notfært sér reiknihraða tölvunnar til að sjá fram á mögulegan hagnað eða tap og þannig oft getað verið á undan mannlegri getu til að bregðast við nýjum upplýsingum. Var fyrirtækið ábyrgt fyrir um 11% af heildarviðskiptum í kauphöllum í Bandaríkjunum frá janúar til maí á þessu ári. 

Sjálfvirk verðbréfaviðskipti umdeild

Stór verðbréfafyrirtæki hafa í kjölfar mistakanna ákveðið að stoppa viðskipti við Knight meðan verið er að vinna úr vandanum, en meðal þeirra eru E-Trade og Vanguard. Málið þykir allt hið vandræðalegasta fyrir forstjórann, Thomas Joyce, en hann var mikið í sviðsljósinu eftir að vandræði í tölvubúnaði hjá Nasdaq-kauphöllinni orsökuðu tafir við skráningu Facebook. 

Málið hefur aftur ýtt af stað umræðum um sjálfvirk verðbréfakaup, en margir hafa gagnrýnt kerfin fyrir að geta gert kerfislæg mistök eins og þessi hjá Knight. Fleiri slík atvik hafa átt sér stað og í maí 2010 lækkaði Dow Jones-vísitalan um 6% á fimm mínútum í svokölluðu leifturhruni (e. flash crash). Þá var orsökin rekin til tæknigalla sem kom af stað keðjuverkun milli fleiri tölvukerfa sem kepptust við að selja.

Efnisorð: hlutabréf
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK