Álverð hefur lækkað um 20% síðan það náði hámarki í byrjun mars á þessu ári. Kostar tonnið af áli nú um 1900 Bandaríkjadollara, en kostaði þá 2.353 dollara. Í upphafi árs var heimsmarkaðsverðið 2.020 dollarar og því er um að ræða 7% lækkun fyrstu sjö mánuði ársins. Segir í markaðspunktum Arion banka að þetta skýrist helst af „bakslagi í efnahagsbata Vesturlanda og veikari eftirspurn í Asíu en fyrirséð var“.
Segir greiningardeild bankans jafnframt frá því að breyting á álverði skýri um 97% allra frávika síðustu 10 árin í tekjum Landsvirkjunar vegna raforkusölu. Fyrirtækið hafi aftur á móti markvisst dregið úr álverðstengingu í samningum og fóru tekjur af álverðsmiðuðum samningum úr 64% árið 2009 niður í 45% árið 2011 og er gert ráð fyrir að sú tala hafi lækkað um 30-40% aukalega síðan þá.
Vegna mikilla sviptinga á álverði eftir því hvernig hagsveiflur eru hverju sinni tryggir Landsvirkjun sig með álverðsafleiðum. Þar á meðal innbyggðum afleiðum vegna þess hluta raforkukaupa- og sölusamninga fyrirtækisins sem eru tengdir álverði. Hinn hlutinn eru afleiðusamningar til að verjast breytingum á álverði og er þá álverðið almennt fest í ákveðnu verði. Síðustu fimm ár hafa innleystar áhættuvarnir verið á bilinu 60 milljónir Bandaríkjadollara í kostnað upp í 42 milljónir dollara í tekjur.