Búlgarska símafyrirtækið Vivacom hefur verið keypt af bönkunum VTB Capital og CCBank, en fyrirtækið hefur verið í höndum kröfuhafa síðan 2010 eftir að fyrri eigandi reyndist ekki gjaldfær fyrir þeim 1,65 milljörðum evra sem félagið skuldar.
Vivacom hét áður BTC og var í eigu Novators, fjárfestingarfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, frá 2005 til 2007. Við sölu félagsins innleysti Novator um 60 milljarða söluhagnað, sem var mesti söluhagnaður íslensks félags. Fyrr á þessu ári var Vivacom til sölu og var Björgólfur meðal þeirra sem lögðu inn tilboð. Auk hans bauð tyrkneska símafyrirtækið Turkcell í Vivacom en Telekom Austria, sem einnig var talið áhugasamt, dró sig úr ferlinu.
Samkvæmt búlgarska blaðinu The Sofia Globe munu lánardrottnar þurfa að afskrifa rúman milljarð evra, en skuldir félagsins verða lækkaðar í 588 milljónir evra. Eftir endurskipulagningu stefna bankarnir á að selja meirihlutaeign sína í símafyrirtækinu.