Sala á sementi hefur aukist um 27,2% á fyrstu 6 mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra að því er fram kemur í gögnum frá Hagstofu Íslands. Segir Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, að „tilfinningin í vor hafi verið að íbúðamarkaðurinn væri að fara í gang“ og að tölurnar staðfesti það.
Í dag kom fram í Morgunblaðinu að Byggingarfélag Gunnars og Gylfa væri stórhuga á næstu árum og að áformað væri uppbygging á 400 íbúðum í Kópavogi og 150 í Garðabæ. Þar af væri verið að ljúka við 52 íbúðir í Lundi og að stutt væri í að hafist yrði handa við aðrar 60 á sama svæði.
Spáir Þorbjörn því að aðrir byggingaraðilar muni fylgja á eftir og að við munum sjá töluvert af nýbyggingum á markað eftir 1 til 2 ár. Segir hann nýlegar fréttir vera „tákn um að rétti tíminn sé að koma“ og bendir á að nú þegar sé verið að vinna á Skuggahverfisreitnum, við nýju stúdentagarðana á háskólasvæðinu og við Úlfarsfell.
Þrátt fyrir að hækkunin milli ára sé mikil verður þó að taka mið af því að vinna við nýbyggingar svo gott sem féll niður hérlendis í kjölfar hrunsins. Ef tekið er meðaltal af sementssölu fyrstu 6 mánuði ársins frá 2000 til 2008 má t.d. sjá að salan í ár er ekki nema þriðjungur af því sem var og með sama áframhaldi tæki um 4 og hálft ár að ná upp í meðalár.