Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað eftir því við Bandaríkjastjórn að dregið verði úr framleiðslu á etanóli sem eldsneytisgjafa til að koma í veg fyrir matvælaskort í heiminum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC þar sem rætt er við Tom Vilsack landbúnaðarráðherra.
Í dag tilkynnti landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna að uppskera á maís myndi dragast saman um 13% og á sojabaunum um 12%. Þetta er minnsta uppskera í 6 ár og telja Sameinuðu þjóðirnar að þetta geti haft mjög alvarlegar afleiðingar á matvælaöryggi í heiminum.
Samkvæmt bandarískum lögum verða 40% af uppskerunni að vera nýtt í framleiðslu á lífeldsneyti, en Bandaríkin eru langstærsti framleiðandi maíss í heiminum. Nú þegar til uppskerubrests kemur gætu slík lög orðið afdrifarík um hversu mikið magn af maís verður hægt að flytja út, sem og um verð vörunnar.
Lögin voru sett til að mæta kröfum um endurnýjanlega orkugjafa og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Bandaríkin eru einnig minna háð öðrum olíuframleiðendum með framleiðslu eldsneytis heima fyrir. Margir hafa gagnrýnt lögin fyrir að hækka matvælaverð og óttast búfjárræktendur að ef ekki verði gripið inn í muni það hækka verð á kjötafurðum á komandi misserum.
Segir Tom við fréttastofu BBC að almennt hefðu þessi lög jákvæð áhrif á Bandaríkin og lækkuðu t.a.m. bensínverð um 7 til 27% vegna aukins framboðs af eldsneyti. Það væri einnig heilmikill iðnaður í Bandaríkjunum tengdur þessari framleiðslu.
Jose Graziano da Silva, yfirmaður Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, segir að með því að draga úr framleiðslu á etanóli væri hægt að ná verði niður og auka magn sem væri notað í matvæli.