Aukinn þrýstingur gæti komið á Facebook í þessari viku þegar opnað verður á viðskipti með stóran hluta af bréfum innherja og fjárfesta sem keyptu sig snemma inn í fyrirtækið. Nú þegar hafa hlutabréf í fyrirtækinu lækkað um 43% síðan það var sett á markað fyrir þremur mánuðum og er virði félagsins metið á 60 milljarða Bandaríkjadala, miðað við um 104 milljarða áður.
Segir í frétt Wall Street Journal að því tímabili sem ekki mátti eiga viðskipti með viðkomandi bréf sé að ljúka og þá muni bréf stórra fjárfesta eins og Goldman Sachs-bankans og rússneska félagsins DST Global hugsanlega fara í sölu. Lækkanir síðustu mánaða muni hins vegar hugsanlega fæla þau frá að selja strax enda sé hagnaðurinn þá ekki jafnmikill og menn hafi í fyrstu vonað.
Hlutabréf fleiri aðila losna einnig í vikunni, svo sem starfsmanna fyrirtækisins sem höfðu fengið að kaupa í því. Það ferli heldur svo áfram til maí á næsta ári. Aðeins um 421 milljón hluta af rúmlega 2,4 milljörðum er nú þegar farin í umferð og því eru margir fjárfestar hræddir um að hið mikla framboð muni þrýsta verðinu enn meira niður, en rúmlega 80% bréfanna eiga enn eftir að fara á opinn markað.
Segir viðmælandi Wall Street Journal að þetta mikla framboð hafi hrætt marga fjárfesta frá, jafnvel þótt þeir telji framtíðarhorfur fyrirtækisins góðar. Læsingar á hlutabréf við frumútboð eru algeng aðferð til hjálpa til við að sannfæra fjárfesta um ágæti bréfanna og hækka verð þeirra með minna framboði tímabundið. Í tilfelli Facebook virðast þær ráðstafanir ekki hafa dugað.