Tónlistarsala á netinu stóreykst

Sala á tónlist færist í auknum mæli yfir á stafrænt …
Sala á tónlist færist í auknum mæli yfir á stafrænt form meðan geisladiskurinn fær að víkja. Eggert Jóhannesson

Tekjur vegna tónlistar sem er streymd á netinu mun aukast um 40% og skila inn 696 milljónum sterlingspunda á þessu ári samkvæmt nýrri könnun sem var framkvæmd af fyrirtækinu Strategy Analytics sem fylgist með tónlistariðnaðinum. Nýjar tölur frá samtökum breskra tónlistarútgefenda staðfesta þessa spá, en tekjuaukning hjá áskriftartónlistarþjónustum á netinu jókst þar í landi um 93% á fyrstu þremur mánuðum ársins, að því er fram kemur í frétt á vef breska ríkisútvarpsins.

Með áskriftarþjónustu er horft til vefsíðna eins og Spotify og tónlist.is, en þar getur fólk borgað ákveðið mánaðargjald og fær í staðin að streyma tónlist á tölvuna hjá sér eða í farsímann. Hjá Spotify fá viðskiptavinir fyrstu 6 mánuðina fría, en eftir það er mánaðarleg hlustun takmörkuð við 10 klukkustundir og auglýsingar nema til komi að viðkomandi borgi mánaðargjald. Hérlendis er í boði á tónlist.is að streyma lögum beint í síma og tölvu og er úrvalið af íslenskri tónlist mun betra en gerist hjá erlendum síðum.

Sá hluti streymisþjónustunnar sem er bundinn við auglýsingatekjur en leyfir viðskiptavininum að hlusta frítt í staðin sá einnig töluverða aukningu milli ára, en 20% vöxtur varð á tekjum í þeim geira og voru heildartekjur um 3,4 milljónir sterlingspunda. Engin ókeypis streymiþjónusta er í boði hérlendis, en Spotify hefur ekki enn samið við  um höfundaréttindagreiðslur við innlenda rétthafa.

Sala á tónlist til niðurhölunar hefur vaxið minna en streymisþjónustan, en þar var 8,5% vöxtur á síðasta ári. Segir í spá Strategy Analytics að gert sé ráð fyrir að sala á stafrænni tónlist muni fara fram úr sölu á tónlist á efnislegu formi, svo sem geisladiskum og vínyl, árið 2015 en 12% samdráttur hefur verið í þeim geira á alþjóðamarkaði síðasta árið og er stafræn sala nú þegar komin fram úr venjulegri sölu í Bretlandi.

Ed Barton, forstjóri félagsins segir þó að horfa verði til þess að minna hafi verið af efni frá stórstjörnunum síðustu mánuði heldur en árin þar á undan. Þetta geti því verið tímabundin lækkun sem geti gengið til baka með nokkrum stærri útgáfum.

Sumir tónlistamenn hafa gagnrýnt þetta nýja fyrirkomulag og segja að tekjur vegna spilunar sé lítil sem engin. Zoe Keating opinberaði t.d. að fyrir tæplega 73 þúsund hlustanir hafi hún fengið 281,87 sterlingspund eða um 0,8 íslenskra krónur á hverja hlustun. 

Martin Mills, stofnandi XL útgáfunnar hefur haldið uppi vörnum fyrir þessar þjónustur og bent á að margir af tónlistarmönnum útgáfunnar fái allt að helming tekna sinna í gegnum spilun á netinu. Spotify gaf einnig út að þeir hafi borgað 180 milljónir Bandaríkjadollara í höfundaréttargjöld á síðasta ári og að gert sé ráð fyrir að þeir greiði 360 milljónir í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK