Spornar gegn rangri lyfjagjöf

RemindMe lyfjaskammtarinn
RemindMe lyfjaskammtarinn Startup Reykjavík

Um helmingur allra sjúklinga tekur lyf á rangan hátt að því er segir í gögnum frá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni. Hvort sem það er með því að taka þau á vitlausum tíma, of stór skammtur sé innbyrður eða að gleymt sé að taka þau. Nokkrir nemendur í verkfræði sáu tækifæri til bótar á þessu sviði og stofnuðu fyrirtækið Eski Tech til að vinna að gerð á RemindMe lyfjaskammtaranum. 

Röng lyfjagjöf kostar hérlendis 2,5 milljarða á ári

Ingunn Guðbrandsdóttir, forstjóri Eski Tech, sagði í samtali við mbl.is að um 20 til 26% af sjúkrahús innlögnum eldri borgara mætti rekja til rangrar lyfjagjafar og að samkvæmt lyfjastefnu velferðarráðuneytisins væri ætlað að kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna þessa væri um tveir og hálfur milljarður á ári. Í allri Evrópu væri þessi kostnaður áætlaður um 160 milljarðar og að 200 þúsund dauðsföll mætti rekja til rangrar lyfjatöku.

„Við erum að þróa lyfjaskammtara sem er ætlaður til að auka meðferðaheldni lyfjagjafa. Í dag er þetta vandamál að hluta til leyst með lyfjaskammtandi rúllum. Við erum að búa til skammtara utan um þessar rúllur sem gerir það að verkum að fólk gleymir síður að taka lyfin sín eða tekur það á röngum tímum eða of mikið af þeim“ segir Ingunn, en um 9 þúsund manns hérlendis nýta sér lyfjaskömmtun í rúllum. 

Skammtarinn er lítið tæki sem lyfin í rúlluformi eru sett inn í og svo skammtar hann á réttum tíma út því magni sem á að taka hverju sinni. Ef aðilinn tekur ekki eftir því að lyfin séu tilbúin er smáskilaboð sent í farsíma viðkomandi sem minnir á lyfjagjöfina.

Vaxandi vinsældir í Evrópu

Rúllulyfjaskömmtun hefur einnig notið vinsælda í Norður-Evrópu, en um 180 þúsund manns  nota hana í Svíþjóð og 120 þúsund aðrir á hinum Norðurlöndunum. Holland hefur einnig verið að taka við sér í þessum efnum, en útbreiðslan er ekki orðin mikil ennþá í Þýskalandi né öðrum Evrópulöndum, þótt gert sé ráð fyrir að það breytist á komandi árum.

Eski Tech hefur verið í samstarfi við Lyfjaver sem hefur aðstoðað og stutt þau í þróuninni, en Ingunn vonast til að hægt verði að leigja skammtarana út til sjúklinga í gegnum apótekin. Hún segir óskastöðuna þó vera ef sjúkratryggingar myndu niðurgreiða kaup á skammtaranum, en bætir við að það sé langt ferli og til þess þyrftu sjúklingarnir sjálfir að óska eftir niðurgreiðslu.

Eski var eitt af 10 sprotafyrirtækjum sem tók þátt í fjárfestingadegi Startup Reykjavík fyrr í dag, en markmið Eski Tech er að safna nægjanlegu fjármagni til að geta hafið fjöldaframleiðslu á skammtaranum. Auk Ingunnar standa Hildigunnur Björgúlfsdóttir, Vaka Valsdóttir, Sveinn B. Magnússon, Ólafur Helgi Guðmundsson og Hjörtur Geir Björnsson að fyrirtækinu, en þau útskrifuðust öll úr verkfæði fyrr á þessu ári.

Stofnendur Eski Tech
Stofnendur Eski Tech Startup Reykjavík
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK