Apple náði í dag því langþráða markmiði að skáka Microsoft úr sæti sem verðmætasta fyrirtæki allra tíma út frá skráðu gengi. Verðmæti bréfa Apple fór upp í nærri 622 milljarða Bandaríkjadollara þegar gengið náði upp í 664,75 dollara á hlut vegna orðróms um að fyrirtækið myndi fljótlega kynna nýjar gerðir af iPhone, iPad og Apple TV. Fyrra met Microsoft var sett árið 1999 þegar félagið var metið á 619 milljarða í uppganginum kringum netbóluna svokölluðu.
Bréf fyrirtækisins ruku upp á föstudaginn í kjölfar þess að fjárfestar höfðu spáð því að gengið gæti náð upp í allt að 900 dollara á hlut í kjölfar þess að iPhone 5 komi á markað og verði stærsta einstaka útgáfa farsíma frá upphafi. Talað hefur verið um að nýr sími verði kynntur í september og muni hann hafa stærri skjá en forverinn.