Auðveldara að finna skóna hennar Carrie og jakkafötin hans Bonds

Sigurður, Árni og Óskar, stofnendur Stream Tags
Sigurður, Árni og Óskar, stofnendur Stream Tags Stream Tags

Hefur þig langað að vita hvar þú getur fengið skóna sem Carrie klæddist í Sex and the City eða hverrar tegundar jakkafötin eru sem Mad Men-stjarnan Don Draper er í? Þetta segja Óskar Arnarson og félagar hans hjá fyrirtækinu Stream Tags að sé handan við hornið, en þeir eru að þróa hugbúnað sem gefur þér upplýsingar um staðsetningu, tónlist, fatnað og aukahluti, auk þess sem nöfn leikara og almennar upplýsingar um kvikmyndina eru aðgengilegar á einum stað.

Á föstudaginn kynnti fyrirtækið hugbúnaðinn á fjárfestingadegi Startup Reykjavík með það fyrir augum að finna fjárfesta sem geta stutt þá við frekari þróun og kynningu erlendis. Í samtali mbl.is við Óskar sagði hann þá félaga stefna á Bandaríkjamarkað með vöruna, sem þeir telja að verði eftirsótt bæði af kvikmyndamógúlum og tískusinnuðu fólki sem vill vita allt um nýjustu straumana sem birtast í kvikmyndunum. 

Upplýsingar um allt í kvikmyndum

„Við gerum forrit fyrir snjalltæki og vefinn sem gerir þér kleift að fá upplýsingar um allt sem þú sérð eða heyrir meðan þú horfir á kvikmyndir,“ segir Óskar, en þeir hafa safnað saman upplýsingum úr fjölmörgum gagnagrunnum auk þess sem þeir fá upplýsingar úr svokölluðum innkaupalistum kvikmyndaveranna um þær vörur, föt og tæki sem koma fram í myndunum.  

Fólk getur svo horft á bíómyndina heima hjá sér með sjaldtölvuna í fanginu og fylgst með því sem fyrir augu ber og í leiðinni séð hvar kjóllinn í nýjustu mynd Penélope Cruz fæst og hvað hann kostar, eða á hvaða stað í heiminum James Bond er að berjast við óvini Bretlands og hvernig hægt sé að bóka ferð þangað.

Tískusinnaðir stór markhópur

Óskar segir að stærsti markhópurinn sé í Bandaríkjunum og að þeir stefni á að markaðssetja hugbúnaðinn sérstaklega á vesturströndinni, en þar eru einmitt flest kvikmyndaverin niðurkomin. Helstu notendur eru kvikmyndamógúlar og tískusinnað fólk, en Óskar telur að seinni hópurinn sé mjög stór þegar kemur að tekjumöguleikum.

Með þessu módeli getur fyrirtækið fengið umboðstekjur þegar fólk kaupir vöru eftir að hafa séð vöruna í gegnum forritið, en auk þess segir Óskar að upplýsingar sem verði til með notkun á svona forriti séu mjög dýrmætar. Þannig geti þeir selt nákvæmar upplýsingar með tímasetningu innan hverrar myndar um það hvað neytendur séu að leita eftir eða líki við. Nefnir Óskar að nú þegar sé eitt fyrirtæki sem hafi miklar tekjur af því að einungis safna upplýsingum á samskiptamiðlum um það hvaða kvikmyndir fólk horfir á. Það hafi ekki möguleika á að tímasetja áhuga innan myndarinnar né sjá hvaða hlutir séu vinsælir.

Aðspurður hvort líkja megi Stream Tags við kvikmyndaútgáfu af Pinterest segir Óskar að það megi alveg gera. Stream Tags sé þó auðvitað nokkuð afmarkaðra og sé með nákvæmari upplýsingar. Á næsta ári er stefnt að því að tengja 200 nýjar kvikmyndir við gagnagrunninn og bæta alltaf stóru kvikmyndunum við. Ef vel gengur verði svo hægt að fara aftur í tímann og bæta við eldri myndum. Auk Óskars standa að baki fyrirtækinu Árni Guðjónsson og Sigurður Kr. Ómarsson.

Með hugbúnaðinum getur fólk fundið ákveðnar vörur úr kvikmyndum.
Með hugbúnaðinum getur fólk fundið ákveðnar vörur úr kvikmyndum. Stream Tags
Auðveldara að líkjast stjörnunum
Auðveldara að líkjast stjörnunum Stream Tags
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK