Samstarf um Atlantshaf mikilvægt

Vilhjálmur Jens Árnason, höfundur skýrslunnar.
Vilhjálmur Jens Árnason, höfundur skýrslunnar. Vilhjálmur Jens Árnason

Nauðsynlegt er að horfa heilstætt á möguleika og nýtingu og nauðsynlega vernd í hafinu að því er framkemur í nýrri skýrsla frá Íslenska sjávarklasanum um sjávarklasa við Norður-Atlantshaf. Meginmarkmið skýrslunnar var að kortleggja sjávarklasa á svæðinu og haftengda starfsemi í hverju landi fyrir sig. Þrátt fyrir að löndin búi yfir misjöfnum styrkleikum og veikleikum, eru eiginleikar þeirra um margt svipaðir. Þjóðirnar hafa einnig náð forystu á heimsvísu hvert á sínu sviði; Íslendingar í sjávarútvegi og fisktækni, Norðmenn í laxeldi og olíuvinnslutækni og svona mætti áfram telja.

Horfa heildstætt á tækifærin

Höfundur skýrslunnar, Vilhjálmur Jens Árnason, sagði í samtali við mbl.is að með þessu væri „heilstætt horft til tækifæranna í hafinu“. Gríðarleg tækifæri liggja í hafinu, en lítill hluti þess hefur verið rannsakaður vandlega. Vilhjálmur segir að með klasastarfi sem þessu sé verið að búa til grundvöll fyrir frekara samstarf milli ríkja við norðanvert Norður-Atlantshaf. Skoðað sé hvernig Ísland standi sig á mismunandi sviðum, hvar aðrar þjóðir eru framalega og hvernig hægt sé að læra og vinna saman að því að hámarka afrakstur og bæta nýtingu
auðlinda og tryggja um leið hámarks mögulega vernd svæðisins.

Nefnir Vilhjálmur sem dæmi að hérlendis sé fiskeldi nokkuð stutt á veg komið ef miðað er við nágranna okkar í Noregi sem séu stærstir í fiskeldi af ríkjum Evrópu og Norður-Ameríku, með um helmingi meiri framleiðslu en Bandaríkin sem koma þar í öðru sæti. Á meðan komist Ísland ekki inn á lista með efstu 20 löndum og því geti Ísland lært mikið af Norðmönnum í stað þess að finna upp hjólið sjálfir.

„Hugsa út fyrir hin klassísku landamæri“

„Fyrsta skrefið er að fá menn til að hugsa út fyrir hin klassísku landamæri,“ segir Vilhjálmur og telur að flest ríkjanna hafi náð að skapa sér vissa sérstöðu á ákveðnum sviðum í  tengslum við þá geira sem tengjast haftengdri starfsemi. Nefnir hann sem dæmi að Ísland sé á alþjóðlegan mælikvarða ekki stórt í flutningageiranum, en hafi t.d. náð að gera sig gildandi á alþjólegum mörkuðum þegar kemur að flutningi kælivöru.

Þau lönd sem tekin eru með í Norður-Atlantshafs-sjávarklasanum eru Noregur, Kanada, Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Írland, Ísland, Færeyjar, Grænland auk Skotlands sem er skoðað sér án Bretlands. Heildarfjöldi íbúa á þessu svæði er ekki nema rétt undir 70 milljónum. Um er að ræða nokkuð fámennt svæði, en rúmlega 1% íbúa heimsins búa í löndunum, sem ræður yfir miklu landrými og hefur aðganga að stóru hafsvæði. Á svæðinu eru stórir matvælaframleiðendur og útflytjendur matvæla og miklar fiskveiði og fiskeldisþjóðir, en þess má geta að rétt innan við 10% af öllum veiddum fiski í heiminum kemur um borð í skip frá þessum löndum.

Framarlega á nokkrum sviðum

Nokkur þessara ríkja hafa skipað sér í fremstu röð þegar kemur að rannsóknum á hafinu, á sviði líftækni og við gerð tækja og búnaðar sem gera mun mönnum kleift að leita uppi nýjar auðlindir á hafsbotni og undir honum. Ríkin sem tilheyra Norður-Atlantshafs sjávarklasanum eru auk þess eru í hópi öflugra siglingaþjóða og standa framarlega í nýtingu orkuauðlinda hvort sem um er að ræða olíu- og gasvinnslu á hafi eða á sviði endurnýjanlegrar orku.

Vilhjálmur segir að oft líti menn svo á að nágrannaþjóðirnar séu helstu samkeppnisaðilar, en æskilegt sé að auka samvinnu á svæðinu sem sé í samkeppni við aðra og öflugri keppinauta, svo sem í Austur-Asíu þar sem mannafli er mikill og þekkingarstig oft hátt. Með því verði hægt að samnýta þekkingu og styrkleika allra landanna.

Gott samráð ríkja lykillinn

Ekki megi svo gleyma að framundan séu hugsanlega aukin umsvif á norðurslóðum með opnun siglingaleiða og nýtingu auðlinda sem ekki hefur verið mögulegt að nálgast fyrr.  Það er hagur allra þeirra landa sem tengjast verkefninu að skynsamlega sé staðið að þeirri nýtingu og að gott samráð ríki og öðrum auðlindum á svæðinu sé ekki stefnt í hættu. 

Með skýrslunni hefur verið lagður grunnur sem Vilhjálmur vonast að muni nýtast bæði fyrirtækjum og stjórnvöldum þegar unnið er til framtíðar með auðlindir hafsins og sjá hvert hægt sé að leita eftir nánara samstarfi.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK