Íslendingar í samstarfi við Google

Google
Google Reuters

Sérfræðingar frá bandaríska tölvurisanum Google heimsóttu íslenska hátæknifyrirtækið Stjörnu-Odda nýverið til að kynna sér rafeindamerki sem fyrirtækið framleiðir. Meðal þess sem kannað var í heimsókninni er hvernig auka megi hag beggja fyrirtækja með notkun á kortakerfum Google, til að mynda Google Earth, við myndræna framsetningu mælinga frá tækjunum.

Mælitækin sem Stjörnu-Oddi framleiðir eru það smá að hægt er að festa þau á fiska, fugla og önnur dýr. Þau safna upplýsingum um til dæmis hitastig, ljósmagn, seltu og þrýsting en út frá þeim upplýsingum er hægt að staðsetja ferðir dýra. Þessum mælingum væri hægt að koma fyrir í kortum Google, hvort sem það er í tvívíddar- eða þrívíddarumhverfi.

Sigmar Guðbjörnsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Stjörnu-Odda, vonast til að með nýjunginni verði vinsælla en áður að setja þessar upplýsingar fram á áhugaverðan hátt. Það gæti leitt til þess að kerfi Google verði notuð við kennslu og auki áhuga almennings. „Þetta mun opna möguleika fyrir áhugasama um allan heim að fylgjast með farleiðum, t.d. sjávardýra og fugla,“ segir Sigmar.

Komu eftir boð forseta Íslands

Sérfræðingar Google voru upphaflega í sambandi við skrifstofu forseta Íslands eftir að Ólafur Ragnar Grímsson bauð fulltrúa fyrirtækisins velkomna hingað til lands. Þeir lýstu sig áhugasama um að skoða fyrirtæki tengd hafrannsóknum og í kjölfarið fannst sameiginlegur starfsvettvangur umræddra fyrirtækja.

Með samstarfinu kemur Stjörnu-Oddi upplýsingum betur á framfæri og Google gerir ráð fyrir frekari umferð og notkun á kerfum sínum og hefur áhuga á að koma myndrænum upplýsingum um ferðir dýra sem lifa í og við sjó á framfæri.

Sigmar gerir þó ekki ráð fyrir að samstarfið leiði beint yfir í aukna sölu, enda sé vísindaheimurinn á þessu sviði nokkuð sérhæfður og flestir sem notist við tækin sem Stjörnu-Oddi selur viti af tækjunum og fyrirtækinu.

Sigmar Guðbjörnsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Stjörnu-Odda.
Sigmar Guðbjörnsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Stjörnu-Odda. mbl.is/Ómar Óskarsson
Sendar eru festir á fugla og önnur dýr. Mynd birt …
Sendar eru festir á fugla og önnur dýr. Mynd birt með leyfi Náttúrustofu Vestfjarða
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK