Vilji fyrir hóflegri og skynsamri byggð

Gísli Marteinn og Dagur telja báðir að þörf sé á …
Gísli Marteinn og Dagur telja báðir að þörf sé á fleiri fjölbýlisíbúðum í Reykjavík Ásdís Ásgeirsdóttir

Óvenjulega hátt hlutfall er af sérbýlum í Reykjavík og er borgin byrjuð að leggja áherslu á fjölbýli miðsvæðis. Mikið sé um fyrirspurnir og áform frá verktökum varðandi að byggja fjölbýli inn á við í Reykjavík í stað þess að halda upp í úthverfin. Þetta segir Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Í gær birti mbl.is viðtal við Bjarna Gylfason þar sem fram kom að hann teldi að borgaryfirvöld ættu að taka meira mark á þörfum markaðarins þegar kæmi að aðalskipulagi og stefna að frekari byggingu minni íbúða í fjölbýli í stað þess að bjóða upp á sérbýlislóðir í úthverfum. Gísli segist taka undir með Bjarna um að þörf sé á fleiri fjölbýlisíbúðum miðsvæðis í Reykjavík og segir að nú þegar séu nokkur slík verkefni í gangi, en auk þess hafi mikið verið um fyrirspurnir síðustu mánuði frá verktökum sem séu að skoða slík mál.

Stutt í nokkur verkefni

Nefnir Gísli svæðið neðan Mýrargötu við Slippinn sem dæmi um stað sem sé á lokastigi skipulagsvinnu og lóðirnar nú þegar tilbúnar. Í reynd segir hann að skoða þurfi í heild allt svæðið frá Hörpu út að Granda og nefnir að á Miðbakkanum sé gert ráð fyrir uppbyggingu í aðalskipulagi. Einnig væri upplagt að horfa til svæðisins austanmegin í Skerjafirði og mögulegt væri að fara fljótlega út í framkvæmdir á svæði Vals í Vatnsmýrinni. 

Leggur Gísli áherslu á að þétta þurfi byggðina og segir að fram til ársins 2030 ætti aðeins að horfa til þess að byggja inn á við. Nú þegar sé nóg af sérbýlum á góðum stað í úthverfunum og jafnvel þótt ekkert verði byggt af þeim næstu 18 árin verði hlutfall sérbýla enn yfir því sem gengur og gerist í öðrum borgum sem við miðum okkur við. Gísli bendir á að með því að byggja meira af sérbýlum muni þau væntanlega lækka hlutfallslega í verði miðað við aðrar íbúðir þar sem um offramboð verði að ræða. 

Finnur fyrir miklum áhuga

Á síðustu mánuðum hafa verktakar komið í ríkari mæli með fyrirspurnir um nýbyggingar.  „Verktakar eru að hugsa málið upp á nýtt með hóflegum og skynsamari hugmyndum um húsnæði,“ segir Gísli og bætir við að upp á síðkastið hafi menn verið að skoða reit milli Hverfisgötu og Laugavegar, reitinn við Einholt og Þverholt og Hampiðjureitinn, en sá síðastnefndi verður með blandaðri byggð. Við það bætist svo stúdentaíbúðirnar sem verið er að byggja á háskólasvæðinu, en þar verða 300 íbúðir þegar framkvæmdum lýkur.

Þegar litið er til aðeins lengri tíma mun svo að sögn Gísla norður-suður-braut Reykjavíkurflugvallar víkja samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur. Segir hann að þar gefist Reykjavík gott tækifæri til að skipuleggja byggð fyrir stærstan hluta þeirra 25 þúsund Reykvíkinga sem munu bætast við á næstu 20 árum.

Fjármagnskostnaðurinn þröskuldur

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, samsinnir einnig því að fara þurfi út í framkvæmdir við minni íbúðir, en tekur fram að horfa þurfi sérstaklega til þess að koma góðum grunni undir almennan leigumarkað. Aðspurður um mögulegar lækkanir á lóðaverði segir hann að meirihlutinn af þeim lóðum sem rætt er um sé nú þegar kominn í hendur einkaaðila og því séu þær á markaði og borgin geti því ekki lækkað það verð. Segir hann að einn helsti þröskuldur sem sé nú til staðar fyrir byggingaraðila sé fjármagnskostnaðurinn, en kjör sem bjóðist langtímaleigufélögum þurfi að batna.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, og Gísli Marteinn …
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, og Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, brostu breitt framan í ljósmyndarann þar sem þeir sleiktu sólskinið á Lækjartorgi í gær. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK