Gæti komið til gríðarlegra skaðabóta

Mikið af lögsóknum hrannast nú upp eftir að Barclays-bankinn samdi …
Mikið af lögsóknum hrannast nú upp eftir að Barclays-bankinn samdi við eftirlitsaðila um að greiða sekt vegna Libor-svindlsins. AFP

Lögsóknum á hendur banka sem tengdir hafa verið við LIBOR-málið hefur fjölgað mikið að undanförnu. Kærurnar koma úr öllum áttum, en fjárfestar, bæjarfélög, tryggingafélög og lántakendur eru meðal þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir skaða vegna svindlsins. Þetta kemur fram í frétt á vef The Wall Street Journal.

Eftir að Barclays-bankinn samþykkti að greiða 450 milljónir Bandaríkjadollara til breskra og bandarískra eftirlitsaðila fyrr í sumar hafa fjölmargir aðilar sem töldu sig hlunnfarna haft samband við lögfræðistofur og í framhaldinu sent inn kærur. Michael Hausfeld, lögfræðingur hjá Hausfeld LLP í Washington, segir að þetta sé „aðeins upphafið“ og að mikill fjöldi hafi haft samband til að skoða réttarstöðu sína.

Greiningaraðilar hafa margir hverjir reynt að setja tölu á þau áhrif sem svindlið hafði á aðila á markaðnum og hverjar kröfur á hendur bönkunum gætu orðið. Í júlí sagði skýrsla frá Macquarie Research að sekir bankar gætu átt yfir höfði sér að þurfa að greiða 176 milljarða dollara (21.120 milljarðar íslenskra króna) í skaðabætur. Var þá miðað við að Libor vextirnir hafi verið 0,4 prósentum neðar en rétt gengi.

Aðrar kannanir benda til þess að upphæðin sé nokkuð lægri og sögðu sérfræðingar hjá Bruyette & Woods Inc. að gera mætti ráð fyrir 47,5 milljörðum dollara í skaðabætur. Hjá Morgan Stanley-bankanum, sem er ekki einn af stóru bönkunum sem hafa verið tengdir við málið, spá menn því að greiðslurnar verði um 7,8 milljarðar dollara.

Talið er að mjög erfitt verði fyrir stefnendur að vinna mál fyrir dómstólum, en til þess þurfi þeir að sýna fram á að um svindl hafi verið að ræða og að þeir hafi tapað vegna þess. Jafnvel þótt Barclays-bankinn hafi samið við eftirlitsaðila er það ekki nægjanleg sönnun fyrir dómstólum um að neitt saknæmt hafi átt sér stað. Það getur því stefnt í áralöng réttarhöld með gífurlegu flækjustigi.

Efnisorð: Libor
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK