Kvikmyndahátíð gífurlega mikilvæg fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað

Sigurjón Sighvatsson og Hrönn Marínósdóttir
Sigurjón Sighvatsson og Hrönn Marínósdóttir Sigurgeir Sigurðsson

Það styttist í að Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, verði haldin í níunda skipti núna í haust, en hátíðin stendur yfir í 11 daga frá og með 27. september. Samkvæmt Hrönn Marinósdóttur, stjórnanda hátíðarinnar, gerir svona hátíð gífurlega mikið fyrir innlendan kvikmyndaiðnað, auk þess að vera mikil landkynning og skila sér bæði beint og óbeint í auknum ferðamannastraumi. Mbl.is ræddi við Hrönn og Sigurjón Sighvatsson, framleiðanda, um hátíðina og mikilvægi hennar fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað og kynningu landsins.

Fjöldi kvikmynda frá öllum heimsálfum er sýndur á hátíðinni ár hvert, en hún hefur vaxið mikið síðustu árin og er komin vel yfir unglingsaldurinn ef miðað er við aldur menningahátíða almennt. Fjöldi gesta á hátíðinni er um 27 þúsund, en þar af koma vel yfir 1000 erlendir gestir til landsins vegna hátíðarinnar samkvæmt Hrönn. Þar af koma um 500 manns á til landsins á vegum hátíðarinnar, svo sem leikstjórar, blaðamenn og aðilar tengdir kvikmyndageiranum erlendis. Um 100 sjálfboðaliðar komi jafnframt gagngert til að vinna við hátíðina. Segir hún að velta hátíðarinnar sé um 60 milljónir, en auk þess skapist töluverðar afleiddar tekjur og gjaldeyristekjur vegna erlendra ferðamanna í formi einkaneyslu.

Mikil umfjöllun og landkynning

Ef notast er við svipaðar tölur og komu fram í skýrslu Útflutningsstofu íslenskrar tónlistar og Íslandsstofu um Iceland Airwaves-hátíðina í fyrra, má áætla að eyðsla ferðamanna sem komu eingöngu hingað til lands vegna hátíðarinnar nái hátt upp í 300 milljónir og það á tíma þegar ferðamannastraumurinn er að minnka.

Hrönn segir að þó megi ekki einblína of mikið á þessar tölur, því fjöldi gesta segi ekki alla söguna. Hingað til lands hafi á síðustu 9 árum t.d. komið um 3000 atvinnumenn úr kvikmyndageiranum og hundruð blaðamanna. Umfjöllun þeirra um íslenska kvikmyndagerð, hátíðina og Ísland almennt vegi þungt í markaðssetningu landsins, en umfjallanir hafi meðal annars birst í The New York Times, The Guardian, El Pais, La Republica, auk bransatímaritanna Hollywood Reporter, Screen og Variety. 

Kom að taka upp hérlendis eftir heimsókn á Riff

Uppbygging tengslanets og að kynna erlendum aðilum kosti Íslands sem upptökustaðar er einnig veigamikill hluti af því sem hátíðin stendur fyrir. Hrönn nefnir að einn verðlaunahafi frá kvikmyndahátíðinni í Feneyjum hafi t.a.m. tekið upp hérlendis eftir að hafa komið á hátíðina. „Besta dæmið er hinn virti leikstjóri Alexander Sokurov, sem var heiðursgestur hátíðarinnar 2006. Hann fór í ferð um landið í boði Saga flim og hreifst mikið af landinu. Nýja myndin hans Faust, sem vann Gullljónið í Feneyjum, var að hluta til tekin upp hérlendis og léku íslenskir leikarar í henni.“

Íslendingar hafa einnig náð góðum tengslum við erlenda kvikmyndagerðarmenn, en hátíðin stendur fyrir kvikmyndasmiðju fyrir unga kvikmyndagerðarmenn sem koma allsstaðar úr heiminum segir Hrönn. Nefnir hún sem dæmi að  „einn Íslendingur er að klippa kvikmynd fyrir erlendan leikstjóra sem kom í fyrra. Annar kvikmyndagerðarmaður fór að vinna í Íran vegna tengsla sem mynduðust á hátíðinni fyrir nokkrum árum.“

Sigurjón Sighvatsson, sem lengi hefur verið framleiðandi í Hollywood, er velunnari hátíðarinnar og hann segir mikilvægi hennar vera gríðarlegt fyrir kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi. „Þetta eykur flóruna, það kemur kvikmyndagerðarfólk til landsins sem annars kæmi ekki og það kynnist einnig íslensku kvikmyndagerðarfólki og myndar langtímatengsl.“

Góð tengsl við áhrifafólk

Hann segir tengslin sérstaklega mikilvæg fyrir Íslendinga sem sæki á erlendar hátíðir. „Það er gífurlegt atriði að vera ekki einangraðir, en mjög oft sem Íslendingar fara erlendis á hátíðir og eru einangraðir. Fyrir okkur er ómetanlegt að fá hingað góða erlenda gesti, því þá erum við í návígi við áhrifafólk í þessum bransa,“ segir Sigurjón og segir ekki hægt að bera það saman að hafa beinan aðgang að fólki í 10 daga og að hitta það í kokteilboði, t.d. í Cannes. 

Sem dæmi um áhrifafólk nefnir Sigurjón Geoff Gilmore sem er dómnefndarformaður hátíðarinnar, en hann var yfir Sundance-hátíðinni í um 20 ár og starfar núna við Tribeca-hátíðina í New York. Segir hann að aðgangur að svona fólki sé ómetanlegur og ólíklegt að íslenskir kvikmyndagerðarmenn hefðu þennan aðgang að stórum nöfnum í kvikmyndageiranum ef ekki væri fyrir Riff.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK