Guardtime hefur samið við Opin kerfi ehf. (OK) um viðamikla hýsingu á búnaði. Opin kerfi munu setja upp og þjónusta kjarnakerfi Guardtime í gagnaveri hjá samstarfsaðila sínum Verne Global í Reykjanesbæ.
„Ísland hefur upp á að bjóða marga kosti fyrir alþjóðleg fyrirtæki. Landið er vel staðsett með tilliti til svartíma í Bandaríkjunum og Evrópu, hér er 100% græn orka og svalt loftið notað til kælingar með hagkvæmum hætti. Ég hef heimótt gagnaverið og er sannfærður um að þessi aðstaða sé með þeim betri á alþjóðlegan mælikvarða,“ er haft eftir Mike Gault, forstjóra Guardtime.
Helstu viðskiptavinir Guardtime eru alþjóðlegir bankar, tryggingarfélög og ríkisstofnanir, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Guardtime var stofnað með það að markmiði að byggja upp nýjan staðal fyrir auðkenningu rafrænna undirskrifaðra gagna. Rafræn undirskrift sannar undirritun aðila á gögnum og að enginn einn hluti hefur breyst eða verið átt við frá einum tíma til annars, segir m.a. í fréttatilkynningu.