Segir fjórðung herbergja ólöglegan

Ferðamenn hafa úr miklu úrvali að velja þegar kemur að …
Ferðamenn hafa úr miklu úrvali að velja þegar kemur að gistiþjónustu. Kristófer telur að mikið sé þó um óleyfilega þjónustu. Ómar Óskarsson

Tæplega fjórðungur herbergja á höfuðborgarsvæðinu sem eru í gistiþjónustu er óleyfilegur og ekki með skráðan rekstur. Þetta segir Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center Hotels, en hann vill að stjórnvöld einbeiti sér frekar að upprætingu ólöglegs rekstrar og að skattleggja hann í stað þess að ráðast gegn þeim sem stundi löglegan rekstur.

Kristófer segir að mikil aukning hafi orðið í gistiþjónustu í heimahúsum þar sem fólk leigi út íbúðir til ferðamanna. Nefnir hann að á einum íbúðaleiguvef séu rúmlega 500 skráðar íbúðir til leigu á höfuðborgarsvæðinu. Um skammtímaleigu er að ræða í langflestum tilfellum, en leiga undir 30 dögum flokkast sem gistiþjónusta og af henni þarf að greiða virðisaukaskatt og afla tilskilinna rekstrarleyfa. Að meðaltali segir Kristófer að íbúðirnar séu með tveimur herbergjum og því megi gera ráð fyrir að rúmlega 1.000 herbergi á höfuðborgarsvæðinu séu á skrá hjá síðunni. Auk þess sé fjöldi annarra síðna sem bjóði svipaða þjónustu og þar megi finna fleiri íbúðir.

90% eru ekki með leyfi

Með stuttri könnun segir Kristófer að finna megi út að meira en 90% þeirra sem bjóði herbergi til útleigu í heimahúsum með þessum hætti hafi ekki til þess tilskilin leyfi. Má það teljast líklegt að óskráðir rekstraraðilar sem ekki hafi leyfi greiði ekki skatta og því sé hér um töluvert tekjutap fyrir ríkið að ræða.

Hann furðar sig á aðgerðarleysi stjórnvalda og segir að auðvelt sé fyrir lögreglu að finna út hverjir séu í ólöglegum rekstri og hverjir ekki. Á leigusíðunum sé almennt mynd af íbúðinni, húsnæðinu utan frá og jafnvel rekstraraðilanum sjálfum. Til sé skrá yfir gistiþjónustur með tilskilin leyfi og segir Kristófer að ekki ætti að vera mikið mál að bera þetta saman.

„Steindrepa löglega rekna gistiþjónustu“

Samkvæmt Hagstofu Íslands voru 3.611 herbergi skráð undir gistiþjónustu í Reykjavík á síðasta ári. Ef þessum 1.000 herbergjum er bætt við má sjá að þau telja tæplega fjórðung af herbergjafjölda á svæðinu. Kristófer segir þessa miklu aukningu erfiða viðfangs fyrir hóteleigendur og bendir á úttek KPMG frá því í dag, þar sem fram kemur að framlegð hótela á höfuðborgarsvæðinu sé aðeins um 2,6%. Segir hann að enginn myndi fara út í rekstur sem sýndi þessar tölur, hvað þá að hefja fjárfestingar.

Yfirvöld kynntu nýlega að hækka beri virðisaukaskatt á hótel- og gistiþjónustu úr 7% í 25,5%. Kristófer telur ekki hægt að leggja meiri byrðar á hótel sem stendur og að berjast verði gegn ólöglegri starfsemi fyrst. „Stjórnmálamenn tala ferðaþjónustuna upp og rætt hefur verið um að hótelvæða efri hluta Laugavegarins,“ segir hann og bætir við að með hækkun skattsins muni yfirvöld „steindrepa löglega rekna gistiþjónustu og við tekur sú ólöglega“.

Hefur áhrif á framlegð hótela og framboð íbúða

Í fyrrnefndri úttek kom fram að mikill munur er á framlegð í hótelrekstri milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarinnar. Í bænum sé hún 2,6% en 15,9% út á landi. Kristófer segir að þessi ójafna samkeppnisstaða, sem menn búi við fyrir sunnan, skýri þennan mun á rekstri að miklu leyti.

Mikil umræða hefur verið um verð á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu upp á síðkastið og sagt frá því að hundruð nemenda séu á biðlista eftir íbúðum. Kristófer segir að síðasta árið hafi mikil fjölgun orðið í leiguíbúðum til ferðamanna og íbúðir sem áður voru leigðar til nemenda á veturna séu nú í fullri leigu til erlendra ferðamanna allt árið. Bendir hann á að í lok síðasta árs hafi skráðar íbúðir á fyrrgreindri síðu verið 140, en hafi á níu mánuðum fjölgað um 400 upp í 540.

Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center Hotels
Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center Hotels
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK