Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað (SVN) hefur nú undirritað samning um kaup á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Bergi-Hugin ehf. í Vestmannaeyjum. Seljandi hlutafjárins er hlutafélag í eigu Magnúsar Kristinssonar og fjölskyldu hans.
Kaupsamningurinn er undirritaður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins en kaupverðið er trúnaðarmál á milli kaupanda og seljanda.
Útgerðarfélagið Bergur-Huginn gerir út tvo nýlega togara, Bergey VE-544 og Vestamannaey VE-444. Eftir þessi kaup mun SVN ráða yfir samtals fjórum skipum til bolfiskveiða en samkvæmt fréttatilkynningu frá SVN er ljóst að skipunum verður fækkað um eitt í hagræðingarskyni. Bergur-Huginn ræður yfir aflaheimildum sem nema um fimm þúsund þorskígildistonnum í bolfiski á yfirstandandi veiðiári en samanlagðar aflaheimildir félaganna tveggja munu nema um tíu þúsund þorskígildistonnum í bolfiski.
Að sögn Gunnþórs Ingvasonar mun SVN reka Berg-Hugin sem sjálfstætt félag og halda áfram útgerð frá Vestmannaeyjum.