Aukin vanskil hjá Íbúðalánasjóði benda ekki til bata fyrir heimilin

Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs.
Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs. mbl.is/Ernir

Íbúðalánasjóður leysti til sín 501 íbúð til fullnustu krafna á fyrri hluta ársins, en seldi aðeins 58 eignir á sama tíma. Í samtali við mbl.is segir Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, að mikið af eignum sé á söluskrá og að á næstunni komi mikið af eignum á bæði sölu- og leiguskrá.

Íbúðalánasjóður birti hálfsársuppgjör sitt í gær og þar kom meðal annars fram að eiginfjárhlutfall sjóðsins væri ekki nema 1,4%, en það er 2,6 prósentustigum undir lágmarki sjóðsins og 3,6 prósentustigum undir langtímamarkmiði hans.

Sjóðurinn á í dag um 2.050 íbúðir, en af þeim er 41% í útleigu, eða 846. Sigurður segir að í dag séu um 300 íbúðir á söluskrá og á næstunni muni rúmlega 200 bætast þar við. Nefnir hann sem dæmi að verið sé að leggja lokahönd á að koma tveimur blokkum í sölu sem eru í byggingu á Akranesi. Einnig sé horft til leigumarkaðarins, en tugir íbúða eru þessa dagana í lítilsháttar yfirhalningu og verið að gera þær leiguhæfar. Hann segir að markmiðið sé að allavega 75% af eignum sjóðsins séu í virkri leigu eða söluferli og með þessum aðgerðum verði því marki náð. 

Fjölmargar ástæður eru fyrir því að þau 25% sem eftir standa eru ekki í ferli, en Sigurður segir að það taki tíma að taka við eignum sem komi inn, koma málinu í farveg og ástandsmeta eignina. Einnig séu eignir í alls konar ásigkomulagi og sumar séu á svæðum þar sem hvorki sé sölu- né leigueftirspurn. Að lokum séu einhverjar eignir sem bíði niðurrifs, en það sé lítill hluti.

Vanskil við sjóðinn hafa aukist lítillega, en milli ára hefur hlutfall viðskiptavina í frystingu eða vanskilum aukist úr 14,7% upp í 15,1%. Tekið er fram að hlutfall vanskila sé að aukast meðan viðskiptavinum í frystingu hefur fækkað. „Þróunin hefur verið minna hagfelld en gert var ráð fyrir,“ segir Sigurður.

Bjartsýni í fyrra virðist hafa verið meiri en efni stóðu til og segir Sigurður að bati heimilanna sjáist ekki í lánasafni sjóðsins. „Á síðasta ári var ég þeirrar skoðunar að verið væri að hreinsa út með 110% leiðinni og síðan fengju heimilin niðurfærslur hjá öðrum lánastofnunum. Þegar fólk fengi skýra sýn á fjármál sín og stöðu lána og gæti farið að borga myndu lánin hjá okkur lagast í leiðinni. Þessi bati hefur ekki komið fram í okkar lánasafni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK