Eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs var í lok júní 1,4% en langtímamarkmið sjóðsins er að það sé yfir 5%. Fyrir ári var eiginfjárhlutfall sjóðsins 2,3%. Standa yfir viðræður við stjórnvöld um fjármál sjóðsins.
Í reglugerð um fjárhag Íbúðalánasjóðs kemur fram að ef eiginfjárhlutfall sjóðsins stefnir niður fyrir 4% skal stjórn sjóðsins vekja athygli ráðherra á því og auka tíðni skýrslugjafar. Jafnframt skal stjórnin leggja fram tillögur um leiðir til að ná langtímamarkmiði um eiginfjárhlutfall, þar með talið hvort þörf sé á að hækka vaxtaálag. Ef sýnt þykir að hefðbundnar áhættustýringaraðferðir og svigrúm sjóðsins við vaxtaákvörðun nægi ekki til að verja hag sjóðsins skal ráðherra, að fenginni umsögn stjórnar Íbúðalánasjóðs um nauðsynlegar aðgerðir, gefa út reglugerð um greiðslu þóknunar fyrir aukaafborganir og uppgreiðslu ÍLS-veðbréfa. Skal sú þóknun vega upp að hluta eða öllu leyti mismuninn á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og sambærilegs íbúðabréfs.
Tap af rekstri Íbúðalánasjóðs nam 3.109 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 1.561 milljónar hagnað á sama tímabili fyrra árs.
Eigið fé Íbúðalánasjóðs í lok tímabilsins var 6.445 milljónir samanborið við rúmar 9.555 milljónir í árslok 2011.
Hreinar rekstrartekjur eru 30% umfram áætlun sem skýrist m.a. af góðum árangri í fjárstýringu, en í heild eru rekstrartekjur 26% umfram áætlun. Rekstrargjöld í heild eru 7% undir áætlun en gera má ráð fyrir að kostnaður vegna stærri verkefna sjóðsins komi fram á síðari árshluta. Áætlun sjóðsins gerði ráð fyrir tapi á fyrri hluta árs að upphæð 1.161 milljón króna, segir í tilkynningu til kauphallarinnar.