Það hefur verið mikil vitundarvakning síðustu ár varðandi hjólreiðar og kosti þess að ferðast á fáknum til og frá vinnu og bæði spara peninga og stunda líkamsrækt með litlum tilkostnaði. Reiðhjólaverslanir hafa ekki farið varhluta af þessari aukningu og í vor var gert ráð fyrir metári í sölu, enda var áhugi almennings alltaf að aukast og hjólamenningin ávallt að ryðja sér meira rúms í skipulagi bæja og borgar. Mbl.is ræddi við Ragnar Ingólfsson, verslunarstjóra hjá Erninum, um stöðu hjólamála og nýja verslun sem verður opnuð innan skamms.
Ragnar segir að salan það sem af er ári hafi verið á áætlun, en þó hafi sala á dýrari keppnishjólum farið langt fram úr björtustu vonum og segir hann að þar megi tala um sprengingu. Einnig hafi sala á aukahlutum, fatnaði og varahlutum aukist mjög mikið og það sýni sig að fólk er ekki bara að kaupa ný hjól, heldur hafi notkun þeirra aukist til muna, enda sé viðhaldsþjónustan á mikilli uppleið.
Aðspurður hvað valdi þessum mikla áhuga segir Ragnar að augljóst sé að fólk sé að draga saman í stórum útgjaldaliðum. Þar skoði menn fyrst stærstu liðina og þar vegi bíllinn þungt. Nefnir hann sem dæmi að tryggingum á venjulegum bíl á einu ári svipi til kostnaðar við að koma sér upp nokkuð góðu hjóli sem dugi allt árið til að ferðast til og frá vinnu. Þá sé eftir að skoða allan annan kostnað sem fylgi viðhaldi á bílnum og eldsneytiskostnað.
Þótt kostnaðurinn vegi þungt segir Ragnar að fólk sé einnig farið að horfa í auknum mæli til annarra kosta hjólreiða og nefnir í því samhengi að þær séu vistvænar og góð líkamsrækt. „Það er ekki eitthvað eitt sem breytir öllu, en það er mikil vakning í hreyfingu í samfélaginu,“ segir Ragnar og bendir á að Reykjavíkurborg hafi nýlega samþykkt að leggja nokkra milljarða í byggingu hjólastíga.
Á síðustu árum hefur nokkuð borið á rafhjólum, bæði í formi hjóla sem aðeins ganga fyrir rafmagni og svo þeirra sem rafbúnaði er bætt við eftir á og getur auðveldað fólki hjólastigið og að komast upp erfiðustu brekkurnar. „Það er engin sprengja í rafhjólum, en alltaf að aukast salan,“ segir Ragnar og bætir við að á „næstu tveimur til fimm árum munum við sjá gríðarlega aukningu“. Telur hann að mikil þróun á rafbúnaði hjólanna og lækkandi verð muni auka eftirspurnina mikið.
Örninn stendur þessa dagana á tímamótum, því flutningur á versluninni stendur fyrir dyrum. Ný verslun verður í Faxafeni, við hlið Hagkaupa í gamla Brimborgarhúsinu. Ragnar segir að það sé nokkuð merkileg þróun þegar hjólreiðaverslun sé komin í gamalt bílaumboð og vonar að það sé merki um breytta tíma. Áður hafði Örninn verið á Spítalastíg áður en flutt var í Skeifuna. Þar hefur verslunin einnig skipt um staðsetningu, en hún var færð fyrir hornið á núverandi stað árið 2003.
Mikil þörf á auknu plássi fyrir viðgerðaþjónustu er helsta ástæða þess að nýtt húsnæði var fundið, en Ragnar segir að nýja húsnæðið verði samtals um 1.700 fermetrar samanborið við um 1.000 fermetra á núverandi stað.