Gistinóttum fjölgaði um rúmlega 12% í júlí miðað við sama tíma í fyrra. Gistinætur erlendra gesta voru 90% og fjölgaði um 13%, en gistinóttum íslendinga fjölgaði um 8%. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands í dag.
Gistinóttum á hótelum fjölgaði í öllum landshlutum. Á höfuðborgarsvæðinu voru 154.100 gistinætur eða um 14% fleiri en í júlí 2011. Á Suðurlandi voru 37.900 gistinætur á hótelum í júlí sem er rúmlega 10% aukning samanborið við fyrra ár. Á Norðurlandi fjölgaði gistinóttum um 10%, voru 28.300 samanborið við 25.800 í júlí 2011. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum einnig um 10% en þar var fjöldi gistinátta 11.700. Gistinætur á Austurlandi voru 12.700 og fjölgaði um rúm 7%. Gistinætur á Suðurnesjum voru 10.200 eða um 6% fleiri en í júlí 2011.
Á fyrstu 7 mánuðum ársins hefur gistinóttum erlendra gesta fjölgað um 20% á meðan gistinóttum Íslendinga hefur fjölgað um 11%. Bendir Hagstofan á að í þessum tölum sé einungis að finna upplýsingar um hótel og gististaði sem eru opin allt árið.