Meðaltal reglulegra heildarlauna verslunarfólks er um 7% lægra en meðallaun alls vinnuafls hérlendis. Þegar launaþróun síðustu sex árin er skoðuð kemur í ljós að uppsöfnuð lækkun launa á raunvirði hjá verslunarfólki er 12% samanborið við tæp 5% hjá öðrum starfsgreinum. Þetta kemur fram í tölum í árbók verslunarinnar sem kom út í gær, en þar segir að verslunarfólk hafi almennt dregist aftur úr í launaþróun síðustu sex ár.
Á síðasta ári voru meðallaun verslunarfólks 371 þúsund krónur og voru komin 7% undir meðallaun á vinnumarkaði hérlendis. Árið 2005 voru meðallaun í verslunargeiranum yfir meðaltali og því má sjá að fallið hefur verið nokkurt síðustu ár og ekki síst eftir hrun.
Þegar breytingar frá síðasta ári eru skoðaðar kemur í ljós að mest hækkun var í byggingariðnaði, þar sem hækkunin var 7,2% á raunvirði, og í fjármálaþjónustu þar sem laun hækkuðu um 4,9%. Á meðfylgjandi grafi má sjá breytingu á launum á árunum 2005 til 2011 og sést þar að verslun og iðnaður hafa á tímabilinu borið skertan hlut frá borði ef miðað er við aðrar atvinnugreinar. Fjármálaþjónustan hefur komið best út, en samdráttur þar var minnstur við hrunið.
Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, segir í samtali við mbl.is að það sé tilfinning manna að umskipti séu að verða í verslun, en að fylgni launa mætti vera meira afgerandi. Hann segir þó að almennt hafi laun í verslun komið örlítið á eftir hækkunum í framleiðslu og iðnaði og þetta bil muni væntanlega jafnast út.
Jafnframt segir Stefán að verið sé að brjóta blað í sögu VR, en á þessum dögum sé verið að ráða hagfræðing til starfa hjá félaginu í fyrsta skipti. Markmiðið sé meðal annars að fylgjast náið með könnunum sem þessum, greina tölur nákvæmar og nýta samanburðinn frekar í samningaviðræðum. Segir hann að ef ekkert bendi til breytinga og staða verslunarfólks batni ekki á næstunni sé alltaf sá möguleiki fyrir hendi að nýta endurskoðunarákvæði kjarasamninga nú í janúar.