„Þetta mál er stærra en Vestmannaeyjar“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja. mbl.is

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir bæinn nú undirbúa málsókn á hendur eigendum fyrirtækisins Bergur-Huginn. Hann segir þá ákvörðun eigenda fyrirtækisins að selja allt hlutafé í því til Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað ganga gegn lögum um fiskveiðistjórnun.

„Fyrir það fyrsta er fátt í þessu sem kemur mér á óvart,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum um að forsvarsmenn Bergs-Hugins hafi hafnað kröfu bæjarins um forkaupsrétt á fyrirtækinu.

„Höfum enga aðra kosti“

Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu sem send var í dag segir að ákvæði laganna um forkaupsrétt séu skýr, þau nái aðeins til sölu á fiskiskipum, en ekki á hlutabréfum og auk þess hafi eignarhald fyrirtækisins verið í eigu félaga í Reykjavík. Seljandi er hlutafélag í eigu Magnúsar Kristinssonar og fjölskyldu hans.

„Þetta breytir auðvitað engu um stöðu mála, nema ef til vill að gera það enn skýrara hversu einbeittir kaupandi og seljandi hafa verið í því að koma í veg fyrir forkaupsrétt Vestmannaeyjabæjar, því samkvæmt ársreikningum ársins 2011 er félagið í eigu aðila sem eru skráðir í Vestmannaeyjum,“ segir Elliði.

„Lögmenn okkar eru þegar byrjaðir að undirbúa málsókn til ógildingar á sölunni og tryggja það gagnvart opinberum aðilum að salan verði stöðvuð þar til niðurstaða dómstóla liggur fyrir. Við höfum enga aðra kosti. Þetta mál er stærra en Vestmannaeyjar. Þetta snýst um það hvort forkaupsrétturinn, sem er sá öryggisventill, sem löggjafinn setti inn í fiskveiðistjórnarlögin sé virkur eða ekki. Um það snýst málið,“ segir Elliði.

Segir vilja löggjafans skýran

Hann segir að vilji löggjafans sé skýr að þessu leyti. „Nánast hver einasti stjórnmálamaður sem hefur tjáð sig um þessa 12. grein fiskveiðistjórnunarlaganna, hefur litið svo á að þarna sé sett inn leið fyrir okkur íbúana að tryggja okkur gagnvart skyndilegum sveiflum eins og þessari,“ segir Elliði.

„Okkur finnst að þeir útgerðarmenn sem þarna um ræðir ættu að hugsa sig um þegar við erum að reyna að starfa innan fiskveiðistjórnunarlaganna og berjast með þau að vopni  hversu taktvisst það sé hjá þeim að reyna að sniðganga lögin sem þeir óska eftir stuðningi við á öðrum tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka