Tollamúrar hamla meiri skyrútflutningi

Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar
Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar

Fimm erlend fyrirtæki framleiða vörur undir skyrnafninu, eitt í Bandaríkjunum og fjögur í Danmörku og Svíþjóð. Af þessum fimm eru tvö í Skandínavíu í samstarfi við Mjólkursamsöluna og greiða til hennar leyfisgjald. „Eins og sakir standa höfum við Íslendingar ekki tæki til að stýra því hverjir nota nafnið eða hvernig“ segir Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar.

Á fundi um vöruheitavernd í gær sagði hann mikilvægt að fara vandlega yfir möguleika á að verja skyrnafnið og líta í því sambandi til þess hvernig aðrar Evrópuþjóðir hafa ýmist helgað sér vöruheiti eða fengið vernd tengda landsvæðum. Hann leggur áherslu á að  vöruheitaverndin dugi ekki ein til. Mikilvægt sé að tryggja aðgang að markaði erlendis til að nýta stöðuna sem vöruheitavernd kann að skapa. Nefnir hann í því samhengi að aðeins sé heimilt að flytja um 380 tonn af skyri til landa Evrópusambandsins á ári hverju án tolla. Þessi framleiðslukvóti er allur nýttur til útflutnings til Finnlands og dugar reyndar ekki lengur til.

„Við þurfum að tryggja að við fáum aðgang að markaðinum, þó við séum ekki hluti af Evrópusambandinu, ef við ætlum að hafa raunverulegar tekjur af því að flytja út skyr“ segir Einar. Hann bendir á að erfitt hafi verið að selja mjólkurafurðir á bandarískum markaði og að sölutölur þar hafi ekki hækkað síðustu 5 ár. Markaður í Bandaríkjunum er ekki auðunninn og erfiðleikar með flutning setja íslenskum mjólkurvöruútflytjendum einnig verulegar skorður á þeim markaði. Aðeins eru ein til tvær ferðir í mánuði með skipi vestur um haf og því sé í raun óvinnandi vegur að nota skipaflutninga eins og hægt sé í útflutningi til Evrópu. Því er flogið til Bandaríkjanna með skyr og það er mun óhagkvæmari flutningamáti.

Einar leggur áherslu á að til þess að nýta að fullu þá stöðu sem vöruheitavernd kunni að skapa sé mikilvægt að ná samningi við Evrópusambandið um stærri tollkvóta. Þegar hefur verið leitað eftir 5.000 tonna kvóta, en það gæti tekið langan tíma að fá botn í það mál í samningum. Í dag fer aðeins innan við 1% af heildarmjólkurframleiðslu í skyrútflutning og segir Einar að það nemi framleiðslu á innan við 6 mjólkurbúum af þeim 700 sem séu starfandi í landinu, eða ríflega framleiðslu eins meðalbús í Danmörku.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka