Íslenska sprotafyrirtækið Cloud Engineering, hönnuðir hugbúnaðarins Datatracker, var í dag kosið Best Enterprise Startup, eða besta sprotafyrirtækið í flokki viðskiptahugbúnaðar fyrir hina árlegu Arctic15 ráðstefnu sem haldin verður 16. október næstkomandi í Helsinki, Finnlandi.
Í síðustu viku komst fyrirtækið í hóp með 4 öðrum á sviði viðskiptahugbúnaðar þar sem kosið var um það hvert af fyrirtækjunum kæmist á ráðstefnuna sjálfa. Nú er orðið ljóst að það var Datatracker-kerfið sem vakti mesta lukku og verður þar af leiðandi kynnt í Helsinki í næsta mánuði.
Þetta er stórt skref fyrir Cloud Engineering, en ráðstefnan er öflugur vettvangur til að afla sprotafyrirtækjum stofnfjár. Í fyrra tókst þeim 15 fyrirtækjum sem tóku þátt að safna 12 milljónum Bandaríkjadollurum frá fagfjárfestum á 10 mánuðum eftir að þau kynntu á
ráðstefnunni.
Mbl.is hefur áður fjallað Datatracker, en það leyfir notendum að stilla upp einföldum ferlum til að sækja sjálfvirkt sérvalin gögn af netinu. Meðal annars er markmiðið að gera fyrirtækjum kleift að fylgjast með verðlagningu hjá samkeppnisaðilunum án þess að þurfa sérfræðiaðstoð við uppsetningu og umsýslu gagnasöfnunarinnar.