„Það að flytja þekkingu úr landi er ekki framtíðarlausn í þessu umhverfi fyrir okkur og grefur undan okkur til lengri tíma.“ Þetta segir Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU verkfræðistofu, í viðtali við mbl.is um þá stöðu að sífellt fleiri verkefni í orkuiðnaðinum tengist útflutningi á þekkingu í stað þess að nýta hana hér heima fyrir.
Guðmundur var framsögumaður á kynningarfundi um orkumál sem Íslandsbanki stóð fyrir í morgun og nefndi hann þar meðal annars að þriðjungur af veltu EFLU væri nú vegna verkefna erlendis. Þetta þýddi oft að starfsmenn þyrftu að dvelja erlendis í nokkurn tíma og stundum kæmu viðkomandi starfsmenn ekki heim aftur, heldur færu að starfa fyrir erlend fyrirtæki á þessu sviði. Hann varaði jafnframt við því að ef þessi þróun héldi áfram og lítið væri um verkefni hérlendis í jarðvarma- og vatnsaflsvirkjunum myndi það þýða að reynsla og þekking tapaðist.
Umsvifin á Íslandi verða að vera fyrir hendi að sögn Guðmundar, en þau hafa verið í lágmarki upp á síðkastið. Segir hann það þýða að fyrirtæki þurfi að draga úr starfsemi eða leita á ný mið. Það hafi fyrirtækin gert og farið í auknum mæli á erlendan markað. „Menn þurfa að vinna í því að verja þessi verðmæti eins og hægt er, en það tel ég að ekki hafi verið gert af stjórnvöldum. Fyrirtækin hafa sjálf gert allt sem þau geta til að verja þekkinguna og einn liður í því er að flytja hana út og takmarka þannig skaðann. Sú lausn er aftur á móti ekki til frambúðar ef ekkert er í gangi hér heima“ segir hann og ítrekar nauðsyn þess að skapa gott stoðkerfi utan um þessa þekkingu hér heima, bæði í formi menntunar, menningar og verkefna, annars muni draga úr samkeppnishæfni landsins.
Hann sagði Ísland sitja á miklum tækifærum í orkumálum og að það þyrfti að nýta. „Ísland er orkuland og það eru gífurlegar auðlindir sem við búum yfir. Ísland þarf að þróast í samfélagi þjóðanna og allar þjóðir þurfa að nýta sér sína styrkleika. Mitt mat er að íslendingar vilja almennt finna leiðir til að nýta þessi gífurlegu verðmæti. Ég sé ekki að lausnin sé að skella í lás, hún hlýtur að vera að finna leiðir til að sætta sjónarmið.“
„Því miður er það þannig að okkur hefur ekki tekist sem samfélagi að finna þennan meðalveg“ sagði Guðmundur, en hann segir mikilvægt að búa til farveg fyrir mismunandi skoðanir svo hægt sé að finna lausn sem fólk geti sæst á. Segir hann að mörg atriðanna megi leysa með nýjungum í lausnum og leiðum sem tengist umhverfinu og nefnir sem dæmi það vandamál sem affallsvatn frá jarðvarmavirkjunum orsaki. Telur hann líklegt að með áframhaldandi vinnu á þessu sviði takist mönnum að finna viðunandi lausn sem allir geti sæst á.
Augljósa valkosti í virkjanaframkvæmdum á næstunni telur Guðmundur vera í vatnsafli og jarðvarma. „Það eru þeir valkostir sem við eigum að halda áfram að vinna með og þróa lausnir. Það er svo mikið í húfi fyrir samfélagið og við þurfum að geta nýtt þetta inn í framtíðina, hóflega og til áratuga þannig að vandað sé til verkanna.“
Nefnir Guðmundur vatnsaflið sérstaklega, en hann segir það bæði áhættulítið og traust og að hægt sé að virkja það í hóflegu magni. Það sé því auðveldara að ná sátt um slík verkefni auk þess sem vatnsaflið styrkir aðra valkosti, hvort sem það er vindafl eða jarðvarma.
Guðmundur hefur einnig skoðun á því hvernig staðið er að nýsköpun hérlendis og segir að þrengt hafi verið að rekstrarumhverfi fyrirtækja sem mörg hver kjósi að setja hluta tekna sinna í framtíðarverkefni og nýsköpun. Segir hann að með þeirri pólitísku óvissu sem uppi er um virkjanakosti hafi flest verktakafyrirtæki þurft að draga saman seglin. „Ef harðnar í ári þurfa fyrirtæki fyrst að horfa til skemmri tíma og þá er erfiðara að réttlæta að setja fjármuni í eitthvað sem getur komið að gagni eftir 10 til 15 ár.“
Segir hann að of mikið sé einblínt á nýsköpun sem sérstaka atvinnugrein í stað þess að horfa á hana sem hluta af fjölbreyttum atvinnuvegi og að hún dugi skammt sem skammtímalausn, heldur sé nýsköpun langtímaverkefni fyrir framtíðina. Það megi því ekki draga úr fyrirtækjum sem vilji stunda hana, heldur þurfi starfsumhverfið að vera hliðhollt slíkum greinum. „Ef vígtennurnar eru dregnar úr íslensku atvinnulífinu, þá er ekki hægt að gera ráð fyrir því að nýsköpun komi inn og styrki atvinnulífið“. Bætir hann við að þó „nýsköpun sé lífsnauðsynleg inn í framtíðina, þá mun hún ekki leysa skammtíma vandamál okkar.“